Lífið

Stephen Fry reyndi að fyrirfara sér eftir að hafa tekið viðtal við froðufellandi ráðherra

Birgir Olgeirsson skrifar
Stephen Fry.
Stephen Fry. Vísir/Getty
Breski leikarinn Stephen Fry hefur greint frá því hvernig hommahatur froðufellandi ráðherra í Úganda leiddi til þess að hann reyndi að fyrirfara sér.

Breska ríkisútvarpið BBC mun sýna þáttinn The Not Do Secret Life of a Manic Depressive: 10 Years On 15. febrúar næstkomandi en þar segir Fry frá þessu atviki.

Hann hafði tekið viðtal við Simon Lokodo, sem er ráðherra siðferðismála í Úganda, árið 2012. „Hann froðufelldi og frussaði úr sér hommahatri af verstu sort. Hann studdi frumvarp í Úganda sem átti að gera samkynhneigð að dauðasök,“ segir Fry.

Ráðherrann sagði við Fry að hann yrði handtekinn ef hann reyndi að tala fyrir samkynhneigð í Úganda. Fry, sem glímir við geðhvarfasýki, segist hafa orðið afar þunglyndur eftir að hafa rætt við ráðherrann. Hann segist hafa farið upp á hótelherbergi þar sem hann var með flösku af vodka og róandi lyf.

„Ég raðaði þessum pillum upp og drakk allan vodkan með pillunum. Ég man næst eftir mér liggjandi á gólfinu og heyri einn af starfsmönnum hótelsins tala um að það þurfi að koma mér á sjúkrahús,“ segir Fry.

Þegar hann sneri aftur til Bretlands ákvað geðlæknir hans að hafa undir eftirliti í einn og hálfan sólarhring vegna sjálfvígstilraunarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×