Viðskipti innlent

Hafið yfir skynsamlegan vafa að „Óli“ sé Ólafur Ólafsson

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ólafur Ólafsson afplánar nú dóm á Kvíabryggju vegna Al Thani-málsins.
Ólafur Ólafsson afplánar nú dóm á Kvíabryggju vegna Al Thani-málsins. vísir/vilhelm

Að mati endurupptökunefndar er það hafið yfir skynsamlegan vafa að sá „Óli“ sem þeir Bjarnfreður Ólafsson og Eggert Hilmarsson ræða um í símtali þann 17. september 2008 sé Ólafur Ólafsson sem var einn stærsti eigandi Kaupþings fyrir hrun og afplánar nú fjögurra og hálfs árs langan fangelsisdóm vegna Al Thani-málsins. Nefndin hafnaði þann 26. janúar síðastliðinn beiðni Ólafs um að taka málið upp að nýju.

Símtalið er hluti af gögnum málsins en beiðni Ólafs byggði meðal annars á því að hann taldi að Hæstiréttur hefði lagt rangt mat á símtal þeirra Bjarnfreðs og Eggerts, þar sem Bjarnfreður vísar til samtals við ótilgreindan mann sem kallaður var „Óli“, um tiltekna þætti Al Thani-viðskiptanna. Vildi Ólafur meina að umræddur „Óli“ væri ekki hann heldur Ólafur Arinbjörn Sigurðsson, lögmaður, en óumdeilt er að hann veitti Bjarnfreði lögfræðiráðgjöf vegna viðskiptanna.

Í úrskurði endurupptökunefndar er hluti símtalsins þann 17. september rakinn, líkt og gert er í dómi Hæstaréttar. Í símtalinu kveðst Bjarnfreður vera „búinn að nefna það við Óla sko að það yrði Kýpur félag fyrir ofan [...]“ og [...] hvort að það væri sko flöggun á honum sko.“ Eggert svarar því þá til að „það var næsta atriði af því hann er náttúrulega þarna inn í Eglu og allt það sko.“

Um þetta segir í úrskurði nefndarinnar:

„Hvorki getur verið flöggun á Ólafi Arinbirni, né mun hann hafa verið inni í Eglu. Einnig kemur fram hjá Eggerti að „hann má ekki flagga, við viljum bara að Quatarinn flaggi og enginn annar [...]“ og síðar að „Ólafur náttúrulega á að fá part sinn í kökunni sko.“ Bersýnilegt er að þarna er ekki átt við Ólaf Arinbjörn.“

Þá telur endurupptökunefnd það ekki standast skoðun að átt sé við Ólaf Arinbjörn í símtalinu þann 17. september þar sem hann og Bjarnfreður hafi ekki rætt saman um mögulega flöggunarskyldu vegna aðkomu Ólafs Ólafssonar fyrr en eftir að Eggert og Bjarnfreður ræddu saman í síma:

„Fær því ekki staðist sú röksemd endurupptökubeiðanda að í símtalinu hinn 17. september hafi Bjarnfreður rætt um Ólaf Arinbjörn sem „Óla.“ Breytir yfirlýsing Bjarnfreðs sem lög var fram fyrir endurupptökunefnd ekki þeirri niðurstöðu. Á grundvelli framangreinds er að mati endurupptökunefndar hafið yfir skynsamlegan vafa að sá „Óli“ sem Bjarnfreður kallar svo í símtalinu frá 17. september 2008 og Eggert kallar „Ólaf“ er endurupptökubeiðandi Ólafur Ólafsson.“


Tengdar fréttirFleiri fréttir

Sjá meira