Erlent

Cameron: Líklegra að ungur svartur maður sé í fangelsi en í toppháskóla

Atli Ísleifsson skrifar
David Cameron hefur áhyggjur af stöðu mála.
David Cameron hefur áhyggjur af stöðu mála. Vísir/AFP

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, skýtur fast á bestu háskóla Bretlands í grein þar sem hann segir skólana hafa mistekist að fá fleiri svarta nemendur til að fá þar inngöngu. Rasismi innan veggja leiðandi stofnana landsins „ætti að vera þjóðinni til skammar“.

Í grein Cameron, sem birtist í Sunday Times um mánaðarmótin, sakar hann háskólana, herinn og stærstu fyrirtæki landsins um „innprentuð, stofnanaleg og undirförul“ viðhorf sem halda aftur af fólki.

Hann sakaði Oxford-háskóla, þar sem hann stundaði sjálfur nám á sínum yngri árum, um að ekki gera nægilega mikið til að veita svörtum og fátækum inngöngu í skólann.

Forsætisráðherrann krefst þess í greininni að háskólar leggi sig sérstaklega fram við að bregðast við rasisma og félagslegri mismunun. Ekki sé nóg að segja einfaldlega að skólinn sé opinn öllum.

„Ef þú ertu ungur, svartur maður, þá ertu líklegri til að vera í fangaklefa en að stunda nám í einum af bestu háskólunum,“ ritar forsætisráðherrann.

Cameron hefur fengið David Lammy, þingmann Verkamannaflokksins, til að leiða umfangsmikla rannsókn ríkisstjórnarinnar á rasisma innan dómskerfisins, en mikið hefur verið rætt um hátt hlutfall svartra innan veggja breskra fangelsa.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira