Innlent

Bandaríkjaher hyggur á endurkomu til Íslands

Bjarki Ármannsson skrifar
Varnarlið Bandaríkjahers á Miðnesheiði kvaddi árið 2006.
Varnarlið Bandaríkjahers á Miðnesheiði kvaddi árið 2006. Vísir/Teitur
Bandaríski herinn gæti á næstunni tekið gömul flugskýli hersins hér á landi aftur í gagnið, að því er kemur fram í frétt á vef Stars and Stripes, tímariti Bandaríkjahers. Þar segir að bandaríski sjóherinn hafi farið fram á fjárveitingu til þess að búa flugskýlin undir P-8 Poseidon eftirlitsflugvél, sem hefði það að markmiði að fylgjast með rússneskum kafbátum við Íslandsstrendur.

RÚV greindi frá, fyrstur íslenskra miðla. Greint var frá því síðasta haust að Bob Work, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hefði skoðað flugskýlin í heimsókn sinni til landsins og stjórnvöld vestanhafs hefðu viðrað þá skoðun við íslensk yfirvöld að ástæða gæti verið til þess að auka viðveru bandarísks liðsafla hér á landi.

Aldrei frá endalokum Kalda stríðsins hafa fleiri rússneskir kafbátar verið á sveimi í Norður-Atlantshafi en nú. Slíkir kafbátar hafa meðal annars sést við strendur Noregs og Finnlands á undanförnu ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×