Innlent

Ekkert annað en tímabundnar viðkomur Bandaríkjahers til umræðu

Bjarki Ármannsson skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson segir engar viðræður hafa átt sér stað um varanlega staðsetningu bandarísks liðsafla á Íslandi.
Gunnar Bragi Sveinsson segir engar viðræður hafa átt sér stað um varanlega staðsetningu bandarísks liðsafla á Íslandi. Vísir/GVA
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir engar viðræður hafa átt sér stað á milli Íslands og Bandaríkjanna um varanlega staðsetningu bandarísks liðsafla á Íslandi.

Fyrr í kvöld var greint frá því að bandaríski sjóherinn hafi, samkvæmt frétt á vef tímarits hersins, farið fram á fjárveitingu til þess að búa flugskýli hersins hér á landi undir P-8 Poseidon eftirlitsflugvél, sem hefði það að markmiði að fylgjast með rússneskum kafbátum í Norður-Atlantshafi.

„Þetta þýðir bara það að þeir þurfa, og eru tilbúnir til að kosta, breytingar á flugskýli til að geta notað þessar kafbátaleitavélar sem hafa haft viðkomu hér undanfarin tvö, þrjú ár,“ segir Gunnar Bragi.

Hann segir aukna umferð hafa verið á Keflavíkurflugvelli undanfarin ár, meðal annars á kafbátaleitarvélum Bandaríkjamanna. Það sé þó ljóst að breyta þurfi að minnsta kosti einu skýli til að geta tekið á móti P-8 vélum, nýjustu gerð slíkra véla.

Í fréttinni á vef tímarits hersins segir að sjóherinn gæti í tíð og tíma komið upp einhverskonar langtíma könnunarverkefni (e. permanent patrol mission) hér á landi þar sem skipt væri um sveit flugvéla á hálfs árs fresti.

„Við erum sífellt í sambandi við Bandaríkjamenn vegna öryggismála,“ segir Gunnar Bragi. „En ef að það á að gera eitthvað meira í Keflavík en að hafa þessar tímabundnu viðkomur sem eru reglulega, þá þarf það auðvitað að fara í viðræður milli landa. Og það hefur ekki verið opnað á neitt slíkt.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×