Innlent

Reykjavík greiðir 1,6 milljónir í heyrnartól

Sveinn Arnarsson skrifar
Vísir
Stjórn Reykjavíkurborgar ákvað að kaupa 51 heyrnartól fyrir starfsmenn sína að upphæð 1.642.480 krónur fyrir skömmu til að tryggja vinnufrið starfsmanna. Brugðið var á það ráð að opna vinnurými með tilheyrandi umhverfishljóðum og truflunum fyrir starfsfólk. Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segir þetta dæmi um forgangsröðun meirihluta borgarinnar.

„Þetta er í raun í takt við annað sem maður er að sjá varðandi rekstur borgarinnar á þessu kjörtímabili. Við höfum ítrekað bent á brotalamir í rekstrinum. Hér þarf að fara dýrustu leiðina að því markmiði að tryggja starfsmönnum ráðhússins vinnufrið,“ segir Halldór. „Við höfum sent fyrirspurn um kostnað við breytingar ráðhússins og því vonum við að þessi upphæð verði einnig talin með.“

Fram kemur í svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Fréttablaðsins að þessi kaup séu til þess að tryggja viðunandi vinnuumhverfi fyrir starfsfólk ráðhússins. „Misjafnt er eftir staðsetningu vinnurýma í húsi hversu mikið ónæði er vegna umgangs og umhverfishljóða. Í mörgum tilfellum voru valin heyrnartól út frá því hversu vel þau útiloka umhverfishljóð en mikill erill er í sumum vinnurýmum í Ráðhúsinu auk þess sem stöðugt hefur verið unnið að breytingum og viðhaldi í húsinu undanfarið eitt og hálft ár með tilheyrandi umhverfis­hljóðum,“ segir í svari borgarinnar.

Halldór Halldórsson
Keypt voru átta heyrnartól fyrir atvinnumáladeild, tíu fyrir mannréttindaskrifstofu borgarinnar, þrenn fóru til borgarlögmanns, 13 til borgarritara og skrifstofu borgarstjóra, tíu fóru á upplýsinga- og vefdeild, fern til skrifstofu borgarstjórnar og loks þrenn heyrnartól til skrifstofu eigna og atvinnuþróunar. Heildarkostnaður við þetta er rúmar 1,6 milljónir króna.

Ástæður skipulagsbreytinganna í ráðhúsinu er til að ná meira flæði milli starfsfólks. Nú vinni margir starfsmenn ráðhússins í opnu rými. „Starfsfólk starfar betur sem liðsheild, upplýsingaflæði á milli starfsmanna verður greiðara, starfsfólk einangrast síður og starfsandi verður oft betri, lægri þröskuldur verður á samskiptum á milli starfsmanna þegar aðstoð vantar og hópurinn nær þar af leiðandi betri árangri auk fleiri þátta,“ segir í svari Reykjavíkurborgar. 


Tengdar fréttir

Kalla borgarstjóra á fund fjárlaganefndar

Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins, hefur óskað eftir því við Vigdísi Hauksdóttur, formann fjárlaganefndar, að borgarstjóri Reykjavíkur verði boðaður á fund nefndarinnar vegna fjárhagsstöðu Reykjavíkurborgar.

Þetta hækkar hjá borginni

Borgarstjórn Reykjavíkurborgar samþykkti í gær gjaldskrárbreytingar fyrir næsta ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×