Erlent

Allir strokufangarnir í Kaliforníu nú í haldi lögreglu

Atli Ísleifsson skrifar
Jonathan Tieu (20 ára), Bac Duong (43 ára) og Hossein Nayeri (37 ára).
Jonathan Tieu (20 ára), Bac Duong (43 ára) og Hossein Nayeri (37 ára). MYND/LÖGREGLA Í KALIFORNÍU

Tveir af strokuföngunum þremur, sem sluppu úr fangelsi í Kaliforníu í síðustu viku, voru handteknir af lögreglu í San Francisco í dag eftir að kona benti lögreglumanni á hvítan flóttabíl mannanna.

Hinn tvítugi Jonathan Tieu og hinn 37 ára Hossein Nayeri voru teknir höndum degi eftir að hinn 43 ára Bac Duong hafði gefið sig fram við lögreglu í Santa Ana.

Í frétt USA Today kemur fram að lögreglustjórinn í Orange-sýslu, Sandra Hutchens, segi að lögreglumaður sem var að sinna öðru verkefni hafi við stöðvaður af konu sem benti á flóttabíl strokufanganna, en honum hafði verið ítarlega lýst í fjölmiðlum.

Duong hafði stolið sendiferðabíl sama dag og þeir sluppu úr fangelsinu. Nayeri lagði á flótta þegar lögreglumenn nálguðust bílinn og var handtekinn skömmu síðar. Tieu fannst í felum inni í bílnum.

Þrímenningarnir höfðu verið í haldi ásamt 65 öðrum í Santa Ana, um fimmtíu kílómetrum suðaustur af Los Angeles. Föngunum, sem allir hafa verið dæmdir fyrir alvarleg ofbeldisbrot, tókst með ótrúlegum hætti að sleppa úr fangelsinu með því að brjóta sér leið inn í rými fyrir pípulagnir, saga sundur járnrimla og lagnir, komast upp á þak og síga þaðan niður með því að binda saman lök.

Nayeri var meðal annars sakfelldur fyrir frelsissviptingu og pyndingar. Árið 2012 á hann, ásamt hópi manna, að hafa rænt eiganda sölustaðar marijúana í Kaliforníu og reynt að kúga út úr honum fé. Á Nayeri að hafa slegið manninn með skammbyssu og pyndað hann með gasbrennara. Að lokum eiga þeir að hafa skorið getnaðarliminn af manninum.

Tieu hafði verið í fangelsi síðan í október 2013 eftir að hafa við dæmdur sekur um morð og tilraunir til morðs.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira