Erlent

Austurríkismenn stefna að því að vísa 50 þúsund hælisleitendum úr landi

Atli Ísleifsson skrifar
Á síðasta ári komu um 90 þúsund hælisleitendur til Austurríkis, flestir með því að halda yfir landamærin frá Slóveníu.
Á síðasta ári komu um 90 þúsund hælisleitendur til Austurríkis, flestir með því að halda yfir landamærin frá Slóveníu. Vísir/AFP

Stjórnvöld í Austurríki eru á góðri leið með að samþykkja hertar reglur um flóttamenn og er reiknað með að 50 þúsund hælisleitendum sem hafa fengið synjun um hæli, verði vísað úr landi á næstu þremur árum.

Austurrískir miðlar greindu í dag frá nýrri áætlun stjórnvalda þar í landi sem felur meðal annars í sér að koma á efnahagslegum hvötum til að fá hælisleitendur til að yfirgefa landið fyrr.

Í frétt DR kemur fram að hælisleitendur sem hafa fengið synjun fái nú 370 evrur, um 52 þúsund krónur, þegar þeir yfirgefa landið, en samkvæmt áætluninni stendur til að hækka upphæðina í 500 evrur, samþykki hælisleitandi að flýta brottför sinni.

Greint er frá fyrirhuguðum aðgerðum Austurríkisstjórnar á sama tíma og stjórnvöld víða annars staðar í álfunni hafa hert lög og reglur í þeim tilgangi að draga úr fjölda hælisleitenda. Þannig greindu sænsk stjórnvöld frá því fyrr í vikunni að búist sé við að um 80 þúsund hælisleitendum verði vísað úr landi á næstu árum.

Stjórnvöld í Vínarborg greindu frá því fyrr á árinu að markmiðið væri að fækka hælisleitendum í 37 þúsund, en á síðasta ári komu um 90 þúsund hælisleitendur til Austurríkis, flestir með því að halda yfir landamærin frá Slóveníu.

Innanríkisráðherrann Johanna Mikl-Leitner bendir á að Austurríki sé nú þegar eitt þeirra landa sem vísi flestum hælisleitendum úr landi. Stjórnin vilji hins vegar hraða málsmeðferð hælisleitenda og snúa við þróuninni.

Austurríkisstjórn hyggst jafnframt fjölga á lista yfir þau ríki sem talin eru örugg og er búist við að Marokkó, Alsír, Túnis, Gana, Georgíu og Mongólíu verði bætt á listann innan skamms.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira