Innlent

Eldur á hóteli í Dalasýslu

Heimir Már Pétursson skrifar
Hótel Ljósaland er í Saurbæ í Dalasýslu.
Hótel Ljósaland er í Saurbæ í Dalasýslu. Vísir/Loftmyndir
Mikill eldur kom upp á Hótel Ljósalandi, í Saurbæ í Dalasýslu um fimmleytið í nótt. Allt tiltækt slökkvilið í Dalabyggð hefur barist við eldinn í morgun, með aðstoð slökkviliðsmanna frá Hólmavík og Reykhólum. Sæmundur Jóhannsson, aðstoðarslökkviliðsstjóri í Dalabyggð, er á vettvangi.

„Það er unnið að því að slökkva í glæðunum,“ segir Sæmundur. „En hluti af húsinu er bara fallinn.“

Gistirými fyrir sextán manns eru á hótel Ljósalandi en verið er að stækka hótelið og kom eldurinn upp í nýbyggingu sem enn hefur ekki verið tekið í gagnið.

Stöð 2 tók árið 2014 viðtal við unga parið sem flutti úr borginni og opnaði Hótel Ljósaland:

Sæmundur veit ekki til þess að neinn hafi verið í húsinu þegar eldurinn kom upp. Heimamenn á næsta bæ urðu eldsins varir þegar þeir komu heim af þorrablóti.

„Það var allavega enginn inni þegar við komum á staðinn,“ segir Sæmundur.

Tjónið er mikið, bæði vegna reyks og elds en ekki er ljóst hvað varð til þess að eldurinn kviknaði. Eldsupptök verða rannsökuð, að sögn Sæmundar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×