Innlent

Einn handtekinn vegna hótelbrunans í morgun

Bjarki Ármannsson skrifar
Tjónið á Hótel Ljósalandi er sagt mikið.
Tjónið á Hótel Ljósalandi er sagt mikið. Vísir/Loftmyndir

Einn maður er í haldi lögreglunnar á Vesturlandi grunaður um að hafa kveikt í Hótel Ljósalandi í Saurbæ í Dalasýslu í nótt.

Lögregla var kölluð á vettvang laust fyrir klukkan fimm í nótt vegna ölvaðs manns sem gekk berserksgang við hótelið. Þetta var um hálftíma áður en tilkynnt var að kviknað væri í hótelinu og slökkvilið voru kölluð út.

Líkt og greint var frá í morgun, kom eldurinn upp í nýbyggingu hótelsins sem ekki hefur enn verið tekin í gagnið. Heimamenn á næsta bæ urðu eldsins varir þegar þeir komu heim af þorrablóti.

Tjón á húsinu er sagt mikið eftir brunann og hluti hússins fallinn. Engir gestir voru í byggingunni þegar það kviknaði í henni og enginn slasaðist.

Málið er til rannsóknar hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Vesturlandi.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira