Körfubolti

Dempsey kominn aftur á Krókinn | Jerome Hill leystur undan samningi

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Dempsey, hér til hægri, hleypur aftur í vörn.
Dempsey, hér til hægri, hleypur aftur í vörn. Vísir/Auðunn

Körfuknattleiksdeild Tindastóls sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem tilkynnt var að Myron Dempsey væri á leið til landsins og hann myndi taka slaginn með Tindastól seinni hluta tímabilsins.

Jafnframt var það tekið fram að Jerome Hill væri farinn frá félaginu.

Dempsey sem lék með Tindastól á síðasta tímabili snýr því aftur á Krókinn en með hann innanborðs komst liðið alla leiðina í úrslitaleik Íslandsmótsins þar sem liðið þurfti að sætta sig við tap gegn KR.

Dempsey sem er 25 ára gamall miðherji lék 30 leiki fyrir Tindastól á síðasta tímabili en hann var með 20,8 stig, 10,2 frákast og 1,7 stoðsendingu og lék 28 mínútur að meðaltali í leik.

Í tilkynningunni þakkar körfuknattleiksdeildin Jerome Hill fyrir sitt framlag en hann var með 17,6 stig að meðaltali í leik ásamt því að taka 10,7 frákast í þeim 13 leikjum sem hann lék fyrir Tindastól.

Kemur fram að Dempsey sé væntanlegur til landsins eftir helgi og gæti því leikið fyrsta leik sinn gegn Njarðvík í Síkinu á fimmtudaginn.
Fleiri fréttir

Sjá meira