Innlent

Árni Páll: Enginn getað svarað því hvað tekur við ef Bretar ganga úr ESB

Heimir Már Pétursson skrifar
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir engan hafa komið fram með fullnægjandi svör við því hvað tæki við ef Bretar ganga úr Evrópusambandinu.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir engan hafa komið fram með fullnægjandi svör við því hvað tæki við ef Bretar ganga úr Evrópusambandinu. Vísir
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir engan hafa komið fram með fullnægjandi svör við því hvað tæki við ef Bretar ganga úr Evrópusambandinu eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðild þeirra á næsta ári.

Þeim sem vilja að Bretar gangi úr sambandinu hefur vaxið ásmeginn undanfarna mánuði en í gær birti Sky fréttastofan nýja könnun þar sem 54 prósent Breta segjast vilja vera áfram í sambandinu, 36 prósent vilja úrsögn en 10 prósent eru óákveðin.

„Hvað þá, ef menn ákveða að ganga úr Evrópusambandinu?“ spyr Árni Páll. „Með hvaða hætti ætla menn þá að tryggja efnahagslega hagsmuni Bretlands? Vegna þess að enginn sér fyrir sér aðild að EES, með því áhrifaleysi sem þeirri aðild fylgir.“

Árni segir það ómögulegt að segja hvaða áhrif útganga Breta myndi hafa á samskipti Íslendinga við þá og stöðu Íslands í Evrópu og mögulega aðildarumsókn í framtíðinni. Útganga Breta gæti leitt til frekari uppstokkunar í Evrópu.

„Það eru líka margir þættir sem valda þrýstingi á Evrópusamvinnuna núna, eins og flóttamannavandinn og önnur slík verkefni,“ segir hann. „Þau eru hins vegar þannig að þau eru ekkert auðleysanlegri þegar ríkin slíta sig úr samstarfi við önnur ríki.“

Hins vegar hafi enginn málsmetandi stjórnmálamaður í Bretlandi getað útlistað hvað ætti að taka við ef Bretar yfirgefa Evrópusambandið.

„Meira að segja forsætisráðherra Bretlands, sem er að hefja þessa vegferð, hann vill ekki að Bretland gangi úr sambandinu. Þannig að þetta er svolítið skrýtið, að bjóða fólki upp á valkost um eitthvað sem enginn treystir sér til að taka ábyrgð á.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×