Fótbolti

Lewandowski hetja Bayern annan leikinn í röð

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Robert Lewandowski fagnar hér öðru marki sínu í dag.
Robert Lewandowski fagnar hér öðru marki sínu í dag. Vísir/getty

Robert Lewandowski, framherji Bayern Munchen, skoraði bæði mörk Bayern Munchen í 2-0 sigri á Hoffenheim í lokaleik 19. umferðar í þýsku deildinni í fótbolta í dag. Með sigrinum heldur Bayern átta stiga forskoti á Dortmund á toppi deildarinnar.

Dortmund lenti í töluverðum vandræðum gegn Ingolstadt í gær en náði að taka stigin þrjú og um leið setja pressu á lærisveina Pep Guardiola fyrir leikinn gegn liði Hoffenheim sem er að berjast fyrir lífi sínu í deildinni.

Lewandowski sem var hetja Bayern í fyrsta leiknum eftir vetrarfrí var ekki lengi að stimpla sig inn á heimavellinum á nýju ári en hann kom Bayern yfir á 32. mínútu leiksins eftir góðan undirbúning frá Douglas Costa.

Lewandowski bætti við öðru marki sínu um miðbik seinni hálfleiks eftir sendingu frá fyrirliðanum Philipp Lahm og lauk leiknum með 2-0 sigri Bayern Munchen.

Fyrr í dag tók Wolfsburg á móti Köln á heimavelli og þurftu liðin að sætta sig við 1-1 jafntefli. Missti Wolfsburg af góðu tækifæri til að nálgast næstu lið í baráttunni um sæti í Meistaradeild Evrópu.

Julian Draxler kom Wolfsburg yfir með glæsilegu marki í upphafi seinni hálfleiks en Anthony Modeste nýtti sér sofandihátt í vörn Wolfsburg og jafnaði metin korteri fyrir leikslok.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira