Erlent

Tusk og Cameron funda áfram á morgun

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Tusk og Cameron fyrir utan Downing-stræti 10 fyrir fundinn í kvöld.
Tusk og Cameron fyrir utan Downing-stræti 10 fyrir fundinn í kvöld. vísir/epa
Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, og David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, komust ekki að samkomulagi á fundi sínum í Downing-stræti 10 í kvöld. Á fundinum ræddu þeir meðal annars um hvort ástæða væri til að breyta stöðu Bretlands innan ESB áður en til þjóðaratkvæðagreiðslu um útgöngu landsins úr sambandinu kemur.

„Við höfum ekki komist að samkomulagi ennþá. Það er mikil og mikilvæg vinna framundan næsta sólarhringinn,“ skrifaði Donald Tusk á Twitter-síðu sína í kvöld. Cameron skrifaði hins vegar á síðu sína að hann og Tusk hefðu komist að samkomulagi um að ræða saman í 24 klukkustundir til viðbótar áður en drög að samkomulagi verða lögð fram.

AFP hefur eftir hátt settum manni innan breska stjórnkerfisins að Cameron myndi fara fram á tafarlaust bann við því að farandverkamenn, frá öðrum löndum sambandsins, geti þegið bætur í landinu nema þeir greiði fyrir aðgang að breska kerfinu. 

Í fyrra samþykkti breska þingið heimild til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi veru Bretlands í ESB. Verði af kosningunum verða þær haldnar áður en árið 2017 er liðið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×