Innlent

Kalkskortur sagður vandamál of víða

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Hér á landi er hefð fyrir neyslu mjólkurvara sem ríkar eru af kalki.
Hér á landi er hefð fyrir neyslu mjólkurvara sem ríkar eru af kalki. Fréttablaðið/Pjetur

Víða um heim er kalkskortur í fæði vandamál, að því er fram kemur í nýrri könnun sem fjallað er um á vef Landssambands kúabænda. Síðasta neyslukönnun Landlæknisembættisins bendir þó ekki til þess að hér á landi sé um slíkan vanda að ræða, nema hjá einum hópi.

Á vefnum naut.is er vísað til nýrrar rannsóknar IOF, alþjóðlegra beinþynningarsamtaka, sem gerð hafi verið á sjö þúsund einstaklingum í 80 löndum, sem sýni skýrt að kalkneysla sé langt undir þeim viðmiðunarmörkum sem í dag gildi fyrir daglega neyslu.

„Að jafnaði nam neyslan 594 milligrömmum af kalki á dag,“ segir þar, en ráðlagður dagskammtur sé 1.000 milligrömm fyrir fullorðna og 1.300 milligrömm fyrir níu til átján ára. „Þá er fólki sem er eldra en 70 ára ráðlagt að neyta 1.200 milligramma af kalki daglega.“

Í reglubundinni landskönnun Landlæknisembættisins á matar­æði landsmanna sem birt var 2012 kemur fram að hér á landi hafi kalk í fæði minnkað vegna minni mjólkurneyslu. „En flestir aldurshópar ná þó ráðlögðum dagskammti fyrir kalk að meðaltali nema elsti aldurshópur kvenna,“ segir þar.

Í umfjöllun Landssambands kúabænda er bent á að skortur á kalki geti leitt til bæði beinþynningar, vandamála með sjón og hjartavandamála. „Eitt mjólkurglas inniheldur um 300 milligrömm af kalki en mjólkurvörur eru taldar með bestu kalkgjöfum sem völ er á,“ segir þar. 


Á vef Landlæknis kemur fram að hæfilegt magn af mjólk eða mjólkurvörum á dag samsvari tveimur glösum, diskum eða dósum (eða 500 millilítrum). Þá geti ostur komið í stað annarra mjólkurvara að hluta til. Einnig að takmarka eigi neyslu á mjólkurvörum með mikilli mettaðri fitu eins og nýmjólk, rjóma, feitum ostum og smjöri.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira