Innlent

Byggingarleyfum fjölgar mjög á milli ára

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Umtalsvert fleiri nýjar íbúðir eru í pípunum eftir síðasta ár en árin og jafnvel áratugina þar á undan. Fjöldi byggingarleyfa á síðasta ári er 52,1 prósenti yfir meðtaltali frá 1972 og 17 prósentum yfir meðaltali síðustu fimmtán ára þar á undan.
Umtalsvert fleiri nýjar íbúðir eru í pípunum eftir síðasta ár en árin og jafnvel áratugina þar á undan. Fjöldi byggingarleyfa á síðasta ári er 52,1 prósenti yfir meðtaltali frá 1972 og 17 prósentum yfir meðaltali síðustu fimmtán ára þar á undan. Fréttablaðið/Ernir
Samþykkt áform um byggingu nýrra íbúða í Reykjavík voru 72,4 prósentum fleiri á nýliðnu ári en árið á undan, eða 969, samkvæmt nýrri samantekt byggingarfulltrúa borgarinnar. Þá voru útgefin byggingarleyfi 55,1 prósenti fleiri en 2014, 926 talsins.

Breytingin frá árunum um og eftir hrun er svo aftur margföld. Botni var náð í byggingu nýrra íbúða árið 2010, en þá var hafin bygging á tíu nýjum íbúðum.



Tölurnar eru vísbending um aukinn fjölda íbúða sem er á leið inn á fasteignamarkaðinn á næstu sex til átján mánuðum. Tölurnar eru til marks um uppsveiflu í íbúðarbyggingum sem í pípunum eru í borginni, segir Dagur B. Eggertsson, borgar­stjóri í Reykjavík. Hann hafi verið feginn að sjá aukninguna.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur
„Áhyggjur af samdrætti í íbúðafjárfestingu hefur borið hátt í umræðunni. Og nú veit ég ekki hvort það á við um landið í heild, en íbúðafjárfesting er í það minnsta að tvöfaldast í Reykjavík varðandi það hvað mörg verkefni eru að fara af stað,“ segir hann. Þessar tölur skipti máli því um sé að ræða verkefni sem komin séu í gegn um skipulagsferli sem geti verið tímafrekt. 

„Svo vitum við af mjög mörgum verkefnum sem eru að klára skipulagsferli og eru að fara í hönnun og koma þá vonandi inn í þessar tölur á þessu ári.“ Því sé spáð í borginni auknum takti og fleiri íbúðum í bygginu. „Sem er mjög mikilvægt, því að það vantar.“

Hvort nægur fjöldi íbúða sé í pípunum til að mæta þörf á höfuðborgarsvæðinu segir Dagur erfitt að segja til um, því bara liggi fyrir tölur úr Reykjavík. „Það hefur verið galli á byggingarmarkaðnum almennt hvað hefur verið djúpt á þessum tölum.“

Borgin hafi verið að reyna að taka sig á í þessum efnum því á árum áður hafi viljað verða töf á birtingu þessara talna. „Við viljum standa okkur betur að miðla út á markaðinn þannig að fólk viti hvað er í pípunum og munum kynna á næstunni þær lóðaúthlutanir sem fram undan eru og þau skipulagsverkefni sem eru í kynningu.“

Aukninguna 2015 segir Dagur að hluta skrifast á átak borgarinnar við úthlutun lóða og í skipulagsmálum. „Um 90 prósent þessara verkefna eru á þéttingarsvæðum. Það útheimtir stundum að hlutir séu lengur á leiðinni í gegn um skipulag en er í rauninni öruggari fjárfesting fyrir byggingaraðila. Við vitum að á þessum þéttingarsvæðum er mikil eftirspurn þannig að þegar  verkefni eru komin í gegn um ferilinn getum við verið nokkuð viss um að þau fari strax í uppbyggingu, eins og þessar tölur benda til.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×