Handbolti

Framtíðarhorfur strákanna í höndum Dags og Rússa

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson eftir tapið í gær.
Guðjón Valur Sigurðsson og Alexander Petersson eftir tapið í gær. Vísir/Valli
Þrátt fyrir að Ísland sé úr leik á EM í handbolta gæti liðið engu að síður komist í efri styrkleikaflokkinn fyrir undankeppni HM 2017 í Frakklandi.

Ljóst er að Ísland endar meðal fjögurra neðstu liða á mótinu í Póllandi, 13.-16. sæti. Það ræðst af árangri þeirra liða hvernig lokaniðurröðun þeirra verður.

Þrjú neðstu liðin á mótinu fara í neðri styrkleikaflokkinn en liðið sem hafnar í þrettánda sæti fer í þann efri. Ísland á enn möguleika á að hafna í þrettánda sæti og eiga þar með meiri möguleika á að komast til Frakklands á næsta ári.

Tvö dýrmæt stig Íslands

Ísland og Serbía eru nú þegar úr leik. Ísland er með tvö stig eftir sigurinn á Noregi en Serbía eitt og því ljóst að Ísland verður ávallt fyrir ofan Serbíu.

Lokaumferðin í C-og D-riðlum fer fram í kvöld. Slóvenía er neðst í C-riðli með eitt stig og mætir lærisveinum Dags Sigurðssonar í Þýskalandi í kvöld. Svartfjallaland er án stiga í D-riðli og leikur gegn Rússlandi í kvöld.

Ef bæði Slóveníu og Svartfjallalandi mistekst að vinna leiki sína í kvöld er Ísland öruggt með þrettánda sætið og þar með sæti í efri styrkleikaflokknum. Slóvenum dugir jafntefli til að komast fyrir ofan Ísland en Svartfjallaland verður að vinna sinn leik.

Dregið verður í undankeppni HM 2017 skömmu áður en úrslitaleikur EM í Póllandi fer fram.

Efri styrkleikaflokkur:

Níu lið sem bestum árangri ná á EM í Póllandi fyrir utan heimsmeistara Frakklands og þrjú efstu liðin (fyrir utan Frakkland) sem komast beint á HM 2017.

Neðri styrkleikaflokkur:

Þrjú neðstu liðin á EM í Póllandi ásamt Austurríki, Bosníu, Tékklandi, Lettlandi, Hollandi og Portúgal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×