Innlent

Bent játar líkamsárás en neitar afleiðingunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Árásin átti sér stað á skemmtistaðnum Loftinu í mars í fyrra.
Árásin átti sér stað á skemmtistaðnum Loftinu í mars í fyrra. vísir

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur ákært leikstjórann og tónlistarmanninn Ágúst Bent Sigbertsson fyrir líkamsárás sem átti sér stað aðfaranótt föstudagsins 14. mars í fyrra á skemmtistaðnum Loftinu í Austurstræti.

Bent réðst þá á Friðrik Larsen, stjórnarformann ÍMARK, en í ákæru er Bent gefið að sök að hafa slegið Friðrik ítrekuðum hnefahöggum í andlitinu. Afleiðingar árásarinnar voru þær, að því er greinir í ákæru, að Friðrik „hlaut ótilfært brot á vinstra nefbeini, bólgur og mar á nefi og augnsvæði og sprungna vör.“

Samkvæmt upplýsingum Vísis hefur Bent játað líkamsárásina fyrir dómi en neitar þeim afleiðingum að nefbrot hafi orðið vegna hennar.

Meint brot Bents varðar við 1. málsgrein 218. greinar almennra hegningarlaga og getur varðað allt að þriggja ára fangelsi.

Einar Hugi Bjarnason, lögmaður Friðriks, gerir kröfu um rúmlega 4 milljónir króna í skaðabætur fyrir hönd umbjóðanda síns.


Tengdar fréttirFleiri fréttir

Sjá meira