Innlent

Undirbúa stofnun skóla fyrir fötluð börn

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Steinunn segir mikla þörf á frekari úrræðum fyrir fötluð börn.
Steinunn segir mikla þörf á frekari úrræðum fyrir fötluð börn. vísir/vilhelm

Hafinn er undirbúningur við stofnun skóla fyrir fötluð börn sem þurfa á miklum stuðningi að halda. Markmiðið er að bjóða upp á einstaklingsmiðaða þjónustu allan ársins hring. Til stendur að opna skólann fyrir haustið 2017.

Hópur fagfólks stendur að verkefninu en þeirra á meðal er Steinunn Hafsteinsdóttir atferlisfræðingur. Hún segir mikla þörf á frekari úrræðum fyrir fötluð börn, sérstaklega börn á grunnskólaaldri.

Ákveðinn hópur sem vill gleymast
„Það er ákveðinn hópur barna með þyngstu greiningarnar sem sveitarfélögunum gengur ekki nógu vel að sinna. Foreldrar eru að kalla eftir aukinni þjónustu og sérstaklega foreldrar þeirra barna sem hafa verið með börnin í atferlismeðferð í leikskólum. Þau taka oft miklum framförum og það er mikið aðhald í þjálfuninni, sem svo breytist þegar þau koma í grunnskóla. Það tekur ekkert við af þjálfuninni þegar börnin eru komin í grunnskóla.“

Hún segir að um væri að ræða fullan stuðning allan daginn. „Við reiknum með að þau börn sem koma til okkar verði börn sem þurfa mikinn stuðning, alveg manninn á sig. Þannig að þetta yrði kennsla og öll frístund, allan daginn.“

Ekki gróðastarfsemi
Um sjálfseignarstofnun verður að ræða sem á að halda utan um reksturinn. „Þetta er non-profit,  ekki gróðastarfsemi. Þetta verður væntanlega rekið á því fjármagni sem kemur með hverju barni frá sveitarfélögunum. Það er verið að borga með þessum börnum í sérskóla, sérdeildir og almenna skólann og það væri bara sá peningur sem færi til okkar,“ segir Steinunn og bætir við að bundnar séu vonir við að fá styrkveitingar.

Þá hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvar skólinn verði staðsettur. Stefnt er á að opna hann á höfuðborgarsvæðinu. „Við þurfum að fara í viðræður við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, enda erum við öll hér. En hugmyndin er að fá að leigja inni í öðrum skóla, líkt og alþjóðaskólarnir á höfuðborgarsvæðinu. Þeir leigja húsnæði af almennum skóla og þannig er hægt að samnýta frímínútur og ýmislegt í skólanum. Þannig yrði blöndunin meiri og skólinn ekki einn og sér.“

Þeim sem vilja leggja málefninu lið er bent á að hafa samband við Atla Magnússon í gegnum netfangið atli.magnusson@gmail.com.

Ég og kollegar mínir, Maria Sigurjonsdottir , Steinunn Hafsteinsdóttir og Ida Jensdóttir ásamt hópi foreldra erum að...

Posted by Atli Magnusson on 17. janúar 2016


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira