Innlent

Fjöldi barna sem líða skort hefur tvöfaldast

Sæunn Gísladóttir skrifar
Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna.
Margrét María Sigurðardóttir, umboðsmaður barna.

Fjöldi barna sem líða skort á Íslandi hefur rúmlega tvöfaldast á fimm árum, 9,1 prósent allra barna á Íslandi leið skort árið 2014, samanborið við fjögur prósent barna árið 2009. Samtals líða 6.107 börn skort hér á landi, þar af 1.586 verulegan skort. Þetta kemur fram í skýrslu UNICEF, Réttindi barna á Íslandi: Börn sem líða efnislegan skort, sem kom út í gær.

Börn teljast líða skort ef þau skortir tvennt eða fleira af því sem spurt er um í lífskjararannsókn Evrópusambandsins en svör við spurningum úr þeirri rannsókn eru flokkuð með skortgreiningu UNICEF eftir sjö sviðum: næringu, menntun, klæðnaði, upplýsingum, húsnæði, afþreyingu og félagslífi. Aldursbil greiningar UNICEF nær yfir börn á aldrinum 1 árs til 15 ára. Sjá má hluta af spurningunum hér í töflu.

Eygló Harðardóttir

Helst liðu börn á Íslandi skort árið 2014 hvað varðar húsnæði og félagslíf. Mesta aukningin í prósentustigum er á þeim sviðum, auk afþreyingar. Einungis á sviði upplýsinga og næringar hefur skorturinn minnkað. Skortur meðal barna mælist meiri en hjá fullorðnum.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, segist mjög þakklát frumkvæði UNICEF. „Þarna eru að koma mjög skýrt fram áhrif kreppunnar. Manni finnst mjög erfitt að sjá þessar tölur, en þær staðfesta mjög skýrt áherslur okkar í velferðarráðuneytinu á húsnæðimálin. Við sjáum það að þau börn sem eru í fjölskyldum sem eru á leigumarkaðnum eru líklegust til að búa við skort og er það stærsti áhrifaþátturinn," segir Eygló. 

„Við þurftum þessa greiningu til að sjá áhrif af stuðningskerfi hins opinbera. Við höfum verið með stuðning fyrir einstæða foreldra sem hefur skilað árangri. En börn sem eru með tvo foreldra á heimili sem eru atvinnulausir eða standa höllum fæti á vinnumarkaði, fá kannski ekki nægan stuðning, það eru þá þau börn sem búa við mestan skort," segir Eygló.

Talað er um að börn búi við verulegan skort ef þau skortir þrennt eða fleira af listanum. Alls líða 2,4 prósent barna verulegan skort, þrefalt fleiri en 2009. Auk þess hefur fjölda atriða sem börn skortir fjölgað. Árið 2009 skorti ekkert barn meira en fjögur atriði af lista lífskjararannsóknarinnar en árið 2014 skorti börn allt að sjö þætti af listanum. Um 0,2 prósent barna, eða um 147 börn.

Erfiður húsnæðismarkaður hefur mikil áhrif á skort barna, en sem fyrr segir var ein mesta aukningin í prósentustigum á sviði húsnæðis. Árið 2009 bjuggu 6,6 prósent barna á leigumarkaði við skort en árið 2014 hafði þetta hlutfall tæplega þrefaldast og var komið upp í 19 prósent.

Samkvæmt rannsókninni eru mestar líkur á að barn líði skort á Íslandi ef það er drengur sem á foreldra sem eru einungis með grunnmenntun, yngri en 30 ára, í lægsta tekjubili, á leigumarkaði, fæddir á Íslandi, í stærri bæjum, tveir á heimili með eitt barn, í minna en 50 prósenta starfshlutfalli.

Börn yngstu foreldranna eru rúmlega þrisvar sinnum líklegri til að búa við skort en önnur börn.

Árið 2009 bjuggu 12,5 prósent barna sem áttu foreldri eða foreldra sem fæddir voru erlendis við skort en aðeins 2,9 prósent barna sem áttu foreldra sem fæddir voru á Íslandi. Árið 2015 bjuggu hins vegar 9,4 prósent þeirra barna sem eiga foreldra fædda á Íslandi við skort, samanborið við 6,8 prósent sem áttu foreldra sem fæddir eru erlendis.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira