Íslenski boltinn

Stjörnukonur missa fyrirliðann sinn til Kristianstad

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir tekur við Íslandsbikarnum 2014.
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir tekur við Íslandsbikarnum 2014. Vísir/Valli

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði bikarmeistara Stjörnunnar, mun spila með Kristianstad í sumar en þetta staðfesti Elísabet Gunnarsdóttir, þjálfari sænska liðsins, i viðtali við fréttasíðuna Damfotboll.com.

Ásgerður Stefanía spilaði með Kristianstad í byrjun tímabilsins í fyrra en skipti aftur yfir í Stjörnuna í maí og missti aðeins af einum leik Garðabæjarliðsins í Pepsi-deildinni.

Elísabet staðfestir hinsvegar að Ásgerður Stefanía muni spila allt 2016-tímabilið með Kristianstad og þar með er ljóst að Stjörnukonur eru að missa leiðtoga sinn af miðjunni sem hefur verið ein að lykilleikmönnum í sigurgöngunni.

Ásgerður Stefanía er 29 ára gömul og hefur unnið sex stóra titla með Stjörnunni á síðustu sex árum. Hún hefur spilað með Stjörnunni frá 2005 og er búinn að bera fyrirliðabandið frá árinu 2013.

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir verður annar tveggja íslenskra leikmanna í liði Kristianstad en Sif Atladóttir er komin til baka eftir fæðingarorlof og Elísabet segir að hún sé komin í sitt gamla góða form.

Elísabet horfði aftur á móti á eftir Eyjasystrunum Margéti Láru og Elísu Viðarsdætrum sem sömdu báðar við Val og spila því í Pepsi-deildinni í sumar.

Margrét Lára var fyrirliði liðsins með Susanne Moberg og sú hefur einnig yfirgefið Kristianstad sem missir því báða leiðtoga sína á einu bretti. Sif var hinsvegar fyrirliði liðsins áður en hún fór í barnsburðarleyfi og tekur væntanlega aftur við fyrirliðabandinu nú.

Kristianstad hefur verið í miklum fjárhagsvandræðum og Elísabet segir að félagið hafi ekki efni á því að bjóða stóra samninga. Hún segir því að félagið þurfi að búa til sína leikmenn. Elísabet er samt vongóð um að reksturinn gangi betur í ár en í fyrra.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira