Fótbolti

Real Madrid vildi ekki styggja Ronaldo

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

Spænskir fjölmiðlar fjalla um það í dag að Gareth Bale sé í raun dýrasti knattspyrnumaður heimsins, ekki Cristiano Ronaldo.

Þessu hefur lengi verið haldið fram í enskum fjölmiðlum en þegar Real Madrid keypti Bale frá Tottenham á sínum tíma var gefið út að kaupverðið væri 91,59 milljónir evra. Real keypti Cristiano Ronaldo frá Manchester United á 96 milljónir evra á sínum tíma.

Vefsíðan Football Leaks hefur lekið skjali sem á að vera samningur Real Madrid og Tottenham vegna kaupanna á Bale. Þar kemur fram að lokaverð Bale sé rétt rúmar 100 milljónir evra þegar allt var tekið saman.

Í samningnum er einnig sérstaklega tekið fram að Real Madrid muni gefa út yfirlýsingu um að verð Bale hafi verið 91,59 milljónir evra og að Tottenham mætti ekki tjá sig um kaupverðið.

Fullyrt er að ástæðan fyrir því er til að styggja ekki Cristiano Ronaldo, sem mun ekki vera hrifinn af því að einhver annar knattspyrnumaður hafi í raun verið dýrari en hann.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira