Innlent

Telur verkfall flugvirkja eiga eftir að standa yfir í nokkurn tíma

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Lítið miðar í samningsátt i kjaradeilu flugvirkja sem starfa hjá Samgöngustofu. Mynd tengist frétt ekki beint.
Lítið miðar í samningsátt i kjaradeilu flugvirkja sem starfa hjá Samgöngustofu. Mynd tengist frétt ekki beint. Vísir/Pjetur
Lítið miðar í samningsátt í kjaradeilu flugvirkja sem starfa hjá Samgöngustofu, að sögn Birkis Halldórssonar, formanns samninganefndar Flugvirkjafélags Íslands. Hann segir áhrifa verkfallsins þegar farið að gæta en að minnsta kosti ein flugvél hefur ekki fengið afgreiðslu vegna verkfallsins sem nú hefur staðið yfir í tíu daga.

„Staðan er sú að frá því að verkfall hófst þá er búinn að vera einn fundur sem var nítjánda janúar. Hann var stuttur og árangurslaus sá,“ segir Birkir og bætir við að engin tilboð hafi verið lögð fram. 

Um er að ræða ótímabundið verkfall sex flugvirkja sem starfa sem eftirlitsmenn hjá Samgöngustofu. Þeir hafa verið kjarasamningslausir frá árinu 1989 og til jafns langs tíma hefur verið reynt að ná samkomulagi við ríkið. Birkir segir að farið sé fram á viðlíka samning og unnið hafi verið eftir undanfarin 27 ár. Ekki sé farið fram á launa- eða kjarabætur.  

„Flugvirkjar hafa verið með samkomulag um kaup og kjör en engan kjarasamning. Ríkið hins vegar stendur á sínu og vill aðra útfærslu en við erum tilbúin til að samþykkja,“ segir Birkir. „Við í rauninni teljum að það sem lagt hefur verið fram sé kjaraskerðing, sem við munum ekki samþykkja.“ 

Birkir telur flest benda til þess að verkfallið muni standa yfir í nokkurn tíma. „Ég er ekki bjartsýnn á að samningar takist í bráð.“ 

Síðasti fundur í deilunni var haldinn á þriðjudag. Ekki hefur verið boðað til nýs fundar.​




Fleiri fréttir

Sjá meira


×