Körfubolti

NBA-leikmaður braut fimm sinnum á sama manninum á átta sekúndum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Andre Drummond líður ekki vel á vítalínunni.
Andre Drummond líður ekki vel á vítalínunni. Vísir/EPA

Hann var ansi skrautlegur leikur Detroit Pistons og Houston Rockets í NBA-deildinni í körfubolta í nótt en ótrúleg leikaðferð Houston Rockets gekk ekki upp.

Andre Drummond, aðalmiðherji Detroit Pistons, er frábær leikmaður en hörmuleg vítaskytta. Þjálfarar Houston Rockets ætluðu að nýta sér það og sendu hann 36 sinnum á vítalínuna í leiknum.

Andre Drummond setti nýtt NBA-met með því að klikka á 23 vítum í leiknum en hann bætti með Wilt Chamberlain og DeAndre Jordan.

Houston Rockets tókst samt ekki að vinna leikinn með þessu bellibrögðum því Detroit Pistons vann 123-114.

„Hack-a-Shaq" er þekkt leikaðferð þegar þjálfarar reyna að nýta sér lélega vítanýtingu leikmanna í hinu liðinu þegar lítið gengur að verjast mótherjunum á hefðbundinn hátt.

Bakvörðurinn K.J. McDaniels var látinn brjóta fimm sinnum á Andre Drummond á aðeins átta sekúndum.

„Hack-a-Shaq" hefur oft tekið yfir leiki en útgáfan sem Houston Rockets bauð upp á í nótt er eins sú sorglegasta í sögunni.

Menn geta rétt ímyndað sér hversu skemmtilegt var fyrir áhorfendur, á vellinum og heima í stofu, að fylgjast með þessu bulli í nótt og pressan er farinn að aukast á NBA-deildina að setja reglur sem minnka svona skrípaleik.

Andre Drummond er með 36 prósent vítanýtingu á tímabilinu en hann er að skora 17,6 stig og taka 15,4 fráköst í leik. Þetta var tíundi leikurinn í röð þar sem hann nær ekki 40 prósent vítanýtingu.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira