Innlent

Keypti lottómiða fyrir 400 kall og vann 86 milljónir

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það er ekki amalegt að vinna 86 milljónir króna skattfrjálst.
Það er ekki amalegt að vinna 86 milljónir króna skattfrjálst. Vísir/Valli

„Nei, vinningshafinn hefur ekki gefið sig fram en ég nú von á að hann eða hún geri það í dag,“ segir Stefán Konráðsson, framkvæmdastjóri Íslenskrar getspár, aðspurður um hvort að Íslendingurinn sem vann 86 milljónir í Víkingalottói í gær sé kominn fram.

Vinningsmiðinn var keyptur í Samkaup á Selfossi og segir Stefán að þarna hafi verið um frábæra fjárfestingu að ræða; lottómiðinn kostaði 400 kall sem svo urðu 86 milljónir króna. Fjölmiðlar greindu fljótlega frá því að Íslendingurinn hafi verið einn af þremur sem fékk fyrsta vinning í Víkingalottóinu og segir Stefán að vefsíða lotto.is hafi nánast farið á hliðina.

„Það var mjög mikið álag á vefnum þar sem margir hafa verið að athuga hvort þeir hafi fengið þennan stóra vinning. Það þurfti því að kalla út aukamannskap vegna álagsins en vefurinn þoldi þetta nú allt saman,“ segir Stefán.
 
Þó að vinningurinn sé vissulega stór þá er þetta ekki stærsti vinningurinn sem Íslendingur unnið í Víkingaslottó. Sá stærsti nam 120 milljónum króna. Þá eru hundruð manna sem vinni vikulega smærri vinninga í Víkingalottóinu að sögn Stefáns. Í gær hafi til dæmis rúmlega 700 manns unnið 1000 kall og fimm unnu 85 þúsund krónur.

Stefán segir að það taki um fimm vikur að fá 86 milljónirnar útgreiddar. Þá verði vinningshafanum boðið upp á ráðgjöf eins og öllum þeim sem vinna yfir 5 milljónir hjá Íslenskri getspá. Stefán segir vinningshafa mjög duglega við að nýta sér ráðgjöfina sem sé mjög ánægjulegt.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira