Handbolti

Króatar burstuðu Makedóníu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Marino Maric skorar eitt af fimm mörkum sínum í kvöld.
Marino Maric skorar eitt af fimm mörkum sínum í kvöld. vísir/epa

Króatía vann Makedóníu, 34-24, í milliriðli eitt á Evrópumótinu í handbolta í kvöld, en fyrr í dag hafði Frakkland betur gegn Hvíta-Rússlandi.

Króatía var miklu betra liðið í leiknum og tók Makedóníumenn í kennslustund eins og þeir gerðu við íslenska landsliðið í lokaleik riðlakeppninnar.

Líkt og gegn Íslandi tók króatíska liðið afgerandi forskot strax í byrjun og var komð 7-1 yfir eftir tíu mínútna leik. Þeir voru sex mörkum yfir, 17-11, þegar 40 sekúndur voru til loka fyrri hálfleiks en Makedóníumenn skoruðu síðustu tvö mörkin og munurinn því fjögur mörk í hálfleik, 17-13.

Í stöðunni 24-16 á 39. mínútu fékk Domadoj Duvnjak, leikstjórnandi Króatíu, tveggja mínútna brottrekstur. Makedónska liðið nýtti sér það, skoraði tvö mörk í röð og minnkaði muninn í sex mörk, 24-18.

Endurkoma Makedóníu var svo sannarlega ekki í kortunum því þegar Duvnjak kom aftur inn á skoraði Króatía fjögur mörk í röð og náði tíu marka forskoti, 28-18. Eftir það var augljóslega ekki aftur snúið hjá Makedóníu.

Liðin skiptust á að skora það sem eftir lifði leiks en Króatía vann á endanum afskaplega sannfærandi sigur, 34-24, þar sem varnarleikur þess var frábær.

Ivan Sliskovic skoraði sex mörk úr sex skotum fyrir Króatíu en Manuel Strlek var kjörinn maður leiksins með fimm mörk úr fimm skotum. Hjá Makedóníu skoraði Dejan Manaskov sjö mörk úr sjö skotum.

Króatía er nú með fjögur stig í milliriðli eitt líkt og Frakkland, Noregur og Pólland, en þau tvö síðastnefndu mætast á morgun.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira