Fótbolti

Viðar Örn sagður vera á leiðinni til AGF í Danmörku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viðar Örn Kjartansson í leik með íslenska landsliðinu.
Viðar Örn Kjartansson í leik með íslenska landsliðinu. Vísir/Getty
Íslenski landsliðsframherjinn Viðar Örn Kjartansson gæti verið á leiðinni til danska félagsins AGF samkvæmt frétt í Ekstra Bladet í dag.

AGF hefur áhuga á að semja við Viðar Örn sem opnaði markareikning sinn með íslenska landsliðinu í vináttulandsleik á móti Sameinuðu arabísku furstadæmunum um síðustu helgi.

Ekstra Bladet hefur nokkrar heimildir fyrir áhuga AGF á Viðari sem lék með Jiangsu Sainty í kínversku deildinni á síðasta ári.

Nýjar reglur í Kína um takmarkanir á erlendum leikmönnum inn á vellinum í einu eiga mikinn þátt í því samkvæmt frétt danska blaðsins að Viðar sé að horfa til Evrópu á ný.

Jiangsu Sainty keypti Viðar Örn frá Vålerenga þar sem hann varð markakóngur norsku úrvalsdeildarinnar sumarið 2014 með 25 mörk í 29 leikjum. Viðar var þá á sínu fyrsta tímabili sem atvinnumaður eftir að hafa spilað mjög vel með Fylki tímabilið á undan.

Viðar skoraði 9 mörk i 28 deildarleikjum og 4 mörk í 7 bikarleikjum með Jiangsu Sainty en liðið varð kínverskur bikarmeistari í fyrsta sinn.

AGF hefur góða reynslu af íslenskum framherja því Aron Jóhannsson gerði góða hluti í framlínu liðsins frá 2011 til 2013 og skoraði meðal annars 14 mörk í 18 leikjum á síðasta tímabili sínu í Árósum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×