Körfubolti

Íslenska körfuboltalandsliðið í riðli með Belgíu og Sviss

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslensku strákarni eftir lokaleikinn á Eurobasket 2015.
Íslensku strákarni eftir lokaleikinn á Eurobasket 2015. Vísir/Valli

Íslenska körfuboltalandsliðið verður í A-riðli í undankeppni Evrópumóts karla í körfubolta en dregið var í München í Þýskalandi í dag.

Ísland var í öðrum styrkleikaflokki í fyrsta sinn og lenti því bara í riðli með einni sterkari þjóð á pappírnum. Íslenska liðið fékk Belgíu úr fyrsta styrkleikaflokki.

Ísland fékk síðan Sviss úr þriðja styrkleikaflokki og Kýpur úr þeim fjórða. Dregið var í sjö riðla og var Ísland í einum af sex riðlum með fjögur lið. Leikið verður heima og heiman næsta haust.

Ísland var með Bosníu og Bretland í þriggja liða riðli þegar liðið tryggði sér þátttökurétt á Eurobasket 2015 en það var í fyrsta sinn sem körfuboltalandsliðið komst á stórmót.

Eistland, Holland, Úkraína, Bosnía, Ungverjaland og Svartfjallaland voru öll með Íslandi í styrkleikaflokki og gátu því ekki lent saman í riðli.

Ísland gat lent í riðli með bæði Svíum og Dönum en svo fór ekki að Norðurlandaþjóðir lentu saman í riðli. Danir eru með Þjóðverjum, Hollandi og Austurríki í riðli en Svíar eru í sterkum þriggja liða riðli með Rússlandi og Bosníu.

27 lönd keppa um ellefu laus sæti á Eurobasket 2017 en gestgjafarnir verða Finnland, Rúmenía, Ísrael og Tyrkland. Sigurvegararnir í riðlinum sjö og fjögur lið með bestan árangur í öðru sæti tryggja sér sæti á EM.


Riðlarnir í undankeppni Eurobasket 2017:

A-riðill
Belgía
Ísland
Sviss
Kýpur

B-riðill
Þýskaland
Holland
Austurríki
Danmörk

C-riðill
Rússland
Bosnía
Svíþjóð

D-riðill
Pólland
Eistland
Hvíta-Rússland
Portúgal

E-riðill
Slóvenía
Úkraína
Búlgaría
Kósovó

F-riðill
Georgía
Svartfjallaland
Slóvakía
Albanía

G-riðill
Makedónía
Ungverjaland
Bretland
LúxemborgFleiri fréttir

Sjá meira