Handbolti

Aron um gagnrýnina: Ég veit hvað ég lagði í starfið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Kristjánsson á fundinum í dag.
Aron Kristjánsson á fundinum í dag. Vísir/Vilhelm

Aron Kristjánsson hætti í dag sem landsliðsþjálfari Íslands í handbolta í kjölfar þess að Ísland komst ekki áfram í milliriðlakeppnina á EM í Póllandi.

Aron sat fyrir svörum á blaðamannafundi í dag og var spurður um hvað honum þætti um þær gagnrýnisraddir sem hann hefur fengið á sig eftir mótið.

„Það er oft hiti í mönnum strax eftir leiki, líkt og var tilfellið eftir tapið gegn Króatíu,“ sagði Aron. „Gagnrýnin hefur bæði verið fagleg og líka ófagleg. Ég hef svo sem ekki fylgst mikið með þessu. Ég veit bara hvað ég lagði í þetta, sem og leikmennirnir allir.“

„Menn þurfa oft að hugsa sig um áður en þeir segja hlutina. Það er hluti af sportinu.“

Aron veit ekki hvað tekur við hjá sér en hann sagði að hann hefði ýtt frá sér félögum sem hafi komið með fyrirspurnir til hans á síðustu mánuðum.

„Ég vildi klára þetta mál og nú mun ég skoða hvort ég verði heima eða hvort ég fari út aftur. Ég ýtti öllu öðrum frá mér í haust til að einbeita mér að því að ná tilsettum markmiðum með landsliðið.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira