Innlent

Gengur ekki með formann Samfylkingarinnar í maganum

Heimir Már Pétursson skrifar

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segist ekki leggja fram frumvarp um afnám verðtryggingar vegna þess að hún gangi með formannsembættið í maganum. Nú, þegar ljóst sé að ekki verði tekinn upp annar gjaldmiðill en krónan í fyrirsjáanlegri framtíð, sé nauðsynlegt að losna við verðtrygginguna.

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, segir Sigríði Ingibjörgu og Helga Hjörvar þingflokksformann frjálst að leggja frumvarpið fram en það sé ekki í samræmi við stefnu flokksins um að fólk hafi val á lánaleiðum á meðan ekki sé tekinn upp annar gjaldmiðill.

Er það ekki skynsamlegt?

„Jú, en þetta er bara ekki raunverulegt val. Því meðan að lánveitendur hafa kost á að veita annars vegar lán þar sem  lántaki tekur alla áhættu af verðbólgunni og hins vegar lán þar sem áhættunni er deilt, er auðvitað hvati til að ýta fólki inn í verðtryggðu lánin,“ segir Sigríður Ingibjörg.

Frumvarpið sé lagt fram af einlægni og ekki sem pólitískt klækjabragð gagnvart framsóknarmönnum sem boðað hafa afnám verðtryggingarinnar.

„Ég trúi ekki öðru en að Framsóknarflokkurinn styðji þetta mál. Þetta var afdráttarlaust kosningaloforð. Ég hef meðal annars verið að bíða eftir því að þau leggðu fram frumvarp um þetta efni. Ég hef óskað eftir sérstakri umræðu um verðtrygginguna við forsætisráðherra í eitt ár sem hann hefur ekki orðið við. Og nú er hann farinn að varpa af sér pólitískri ábyrgð á málinu og farinn að tala um þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir Sigríður Ingibjörg.

Á landsfundi Samfylkingarinnar í mars í fyrra bauð Sigríður Ingibjörg sig óvænt fram gegn Árna Páli í embætti formanns flokksins og  tapaði þeirri kosningu með aðeins einu atkvæði. Hún segir framlagningu frumvarpsins ekki hafa neitt með þá staðreynd að gera.

„Þetta mál hefur verið mjög lengi í umræðu innan þingflokks Samfylkingarinnar og hefði í raun og veru verið komið fyrr fram ef ekki hefði verið fyrir andstöðu hans [Árna Páls]. Ég hefði talið að hann ætti að fagna því að við tökum þetta þetta stóra mál og fáum núna grundvallarumræðu um það. Það eru deildar meiningar um þetta í öllu samfélaginu,“ segir hún.

Það liggur fyrir að það verður kosið um formann næsta haust. Ertu að hugsa þér til hreyfings aftur?

„Ég geng ekki með formann Samfylkingarinnar í maganum,“ segir Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.


Tengdar fréttir

Vilja banna verðtryggingu á nýjum neytendalánum

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Helgi Hjörvar, þingmenn Samfylkingarinnar, hafa lagt fram frumvarp á Alþingi sem kveður á um bann við verðtryggingu á nýjum neytendalánum, þar með talið húsnæðislánum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira