Körfubolti

Fimm sigrar í röð hjá Drekunum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hlynur Bæringsson heldur áfram að spila frábærlega fyrir Sundsvall.
Hlynur Bæringsson heldur áfram að spila frábærlega fyrir Sundsvall. vísir/vilhelm

Hlynur Bæringsson, landsliðsfyrirliði í körfubolta, og félagar hans í sænska úrvalsdeildarliðinu Sundsvall Dragons unnu sex stiga heimasigur á Uppsala Basket, 86-80, í kvöld.

Hlynur var öflugur að vanda og skoraði 14 stig auk þess sem hann tók 16 fráköst, en hann spilaði 39 af 40 mínútum leiksins.

Drekarnir eru nú búnir að vinna fimm leiki í röð í sænsku úrvalsdeildinni og lyftu sér með sigrinum upp fyrir Jakob Örn Sigurðarson og félaga hans í Borås Basket sem fengu skell á útivelli gegn Luleå, 111-88.

Jakob spilaði 25 mínútur í kvöld og skoraði 14 stig auk þess sem hann tók tvö fráköst og gaf fjórar stoðsendingar.

Hann hitti úr þremur af sex skotum sínum í teignum og einu af fimm fyrir utan þriggja stiga línuna. Þá var hann með 62 prósent nýtingu af vítalínunni.

Sundsvall er komið upp í þriðja sæti deildarinnar með 26 stig en Borås, sem er einnig á fullu í Evrópubikarnum, er komið niður í fjórða sæti með 24 stig.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira