Erlent

Bloomberg íhugar óháð forsetaframboð

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Fyrrverandi borgarstjóri New York borgar er sagður tilbúinn að leggja milljarð dollara í framboðið.
Fyrrverandi borgarstjóri New York borgar er sagður tilbúinn að leggja milljarð dollara í framboðið. Vísir/EPA

Milljarðamæringurinn Michael Bloomberg íhugar nú alvarlega að bjóða sig fram til forseta Bandaríkjanna í komandi forsetakosningum. Frá þessu greinir New York Times og vitnar í nafnlausann heimildarmann.

Donald Trump, sem einnig er milljarðamæringur, leiðir í forvali Repúblikanaflokksins. Vísir/Getty Images

Bloomberg er fyrrverandi borgarstjóri New York borgar, þar sem hann náði kjöri sem óháður frambjóðandi. Hann er þó fyrrverandi meðlimur í bæði Repúblikanaflokknum og Demókrataflokknum en hann hefur aldrei verið kjörinn fulltrúi sem Demókrati.

Samkvæmt New York Times lét Bloomberg gera könnun á síðasta ári hvar hann stæði gagnvart þeim Donald Trump, sem leiðir í forvali Repúblikanaflokksins, og Hillary Clinton, sem er líklegust til að hljóta útnefningu Demókrata.

Bloomberg er einnig sagður tilbúinn að setja milljarð dollara, jafnvirði 113 milljarða íslenskra króna, af eigin peningum í kosningabaráttuna. 

Sjálfur hefur borgarstjórinn fyrrverandi ekki tjáð sig um málið ennþá en það hafa starfsmenn hans gert og staðfest að hann sé jákvæður fyrir framboði.
Fleiri fréttir

Sjá meira