Handbolti

Danmörk í góðri stöðu eftir sigur á Spánverjum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jorge Maqueda í vandræðum gegn Mikkel Hansen í kvöld.
Jorge Maqueda í vandræðum gegn Mikkel Hansen í kvöld. vísir/getty

Danmörk er komið í ansi góða stöðu í milliriðli tvö á EM í handbolta sem fer fram í Póllandi. Danmörk vann fjögurra marka sigur, 27-23, á Spáni í mikilvægum leik fyrr í kvöld.

Spánverjarnir byrjuðu mjög vel og voru komnir í 6-2 eftir tíu mínútna leik. Þeir náðu mest fjögurra marka forskoti, en leiddu með þremur mörkum í hálfleik 14-11.

Í síðari hálfleik var allt annað að sjá til Dana. Þeir jöfnuðu metin í 18-18, en Spánn skoraði ekki á ellefu mínútna kafla frá 42. mínútu til 53. mínútu og á meðan gengu Danir á lagið.

Þeir náðu fimm marka forskoti með frábærum varnarleik og Niklas Landin í miklu stuði í markinu. Hinu megin hélt Arpad Sterbik Spánverjum á floti, en hann var magnaður í marki Spánverja og var valinn maður leiksins. Lokatölur 27-23.

Eftir sigurinn eru lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar komnir í góð mál í milliriðli tvö. Þeir mæta Svíum á þriðjudag og svo Þjóðverjum á miðvikudag. Þeir eru nú á toppi riðilsins með sex stig, jafn mörg Þjóðverjar, en þeira eiga leik til góða á Þjóðverja.

Spánverjar eru í þriðja sætinu með fjögur stig, en þeir mæta Ungverjalandi á þriðjudag og svo Rússlandi í lokaleiknum.

Michael Damgaard var markahæstur hjá Dönum með sex mörk, en næstur kom Jesper Noddesbo með fimm mörk. Niklas Landin varði eins og berserkur, en hann varði 17 skot (43% markvarsla).

Valero Rivera og Raul Entrerrios voru markahæstir hjá Spánverjum með fjögur mörk, en Arpad Sterbik var magnaður eins og fyrr segir. Hann varði 21 skot eða var með 45% markvörslu.


Tengdar fréttir

Æsispennandi sigur Þýskalands

Þýskaland er á toppi milliriðils tvö eftir sigur á Rússlandi í æsispennandi leik, 30-29. Þjóðverjar eru í góðri stöðu að komast í undanúrslitin, en þeir mæta Danmörku í lokaumferð milliriðilsins á miðvikudag.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira