Handbolti

Danmörk í góðri stöðu eftir sigur á Spánverjum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jorge Maqueda í vandræðum gegn Mikkel Hansen í kvöld.
Jorge Maqueda í vandræðum gegn Mikkel Hansen í kvöld. vísir/getty

Danmörk er komið í ansi góða stöðu í milliriðli tvö á EM í handbolta sem fer fram í Póllandi. Danmörk vann fjögurra marka sigur, 27-23, á Spáni í mikilvægum leik fyrr í kvöld.

Spánverjarnir byrjuðu mjög vel og voru komnir í 6-2 eftir tíu mínútna leik. Þeir náðu mest fjögurra marka forskoti, en leiddu með þremur mörkum í hálfleik 14-11.

Í síðari hálfleik var allt annað að sjá til Dana. Þeir jöfnuðu metin í 18-18, en Spánn skoraði ekki á ellefu mínútna kafla frá 42. mínútu til 53. mínútu og á meðan gengu Danir á lagið.

Þeir náðu fimm marka forskoti með frábærum varnarleik og Niklas Landin í miklu stuði í markinu. Hinu megin hélt Arpad Sterbik Spánverjum á floti, en hann var magnaður í marki Spánverja og var valinn maður leiksins. Lokatölur 27-23.

Eftir sigurinn eru lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar komnir í góð mál í milliriðli tvö. Þeir mæta Svíum á þriðjudag og svo Þjóðverjum á miðvikudag. Þeir eru nú á toppi riðilsins með sex stig, jafn mörg Þjóðverjar, en þeira eiga leik til góða á Þjóðverja.

Spánverjar eru í þriðja sætinu með fjögur stig, en þeir mæta Ungverjalandi á þriðjudag og svo Rússlandi í lokaleiknum.

Michael Damgaard var markahæstur hjá Dönum með sex mörk, en næstur kom Jesper Noddesbo með fimm mörk. Niklas Landin varði eins og berserkur, en hann varði 17 skot (43% markvarsla).

Valero Rivera og Raul Entrerrios voru markahæstir hjá Spánverjum með fjögur mörk, en Arpad Sterbik var magnaður eins og fyrr segir. Hann varði 21 skot eða var með 45% markvörslu.


Tengdar fréttir

Æsispennandi sigur Þýskalands

Þýskaland er á toppi milliriðils tvö eftir sigur á Rússlandi í æsispennandi leik, 30-29. Þjóðverjar eru í góðri stöðu að komast í undanúrslitin, en þeir mæta Danmörku í lokaumferð milliriðilsins á miðvikudag.
Fleiri fréttir

Sjá meira