Innlent

Horfur á eldingum næstu daga

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Útlit er fyrir þrumur og eldingar á suðvesturhorni landsins næstu daga.
Útlit er fyrir þrumur og eldingar á suðvesturhorni landsins næstu daga. Vísir/Getty

Eftir þrumur og eldingar gærdagsins á suðvesturhorninu má reikna með að þrumuveðrið haldi áfram næstu daga. Þá mun kólna í veðri í vikunni.

Íbúar á suðvesturhorni landsins fóru ekki varhluta af þrumum og eldingum sem gengu yfir síðdegis í gær en Þorsteinn V. Jónsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofunni, segir að það hafi í það minnsta mælst 6 til 8 eldingar yfir Reykjanesi og suður af Þorlákshöfn.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands kemur fram að loftið sé nógu óstöðugt til þess að bjóða upp á fleiri eldingar og næstu daga. Upptök þeirra megi rekja til háreistra éljaklakka sem koma inn yfir Reykjanesskagann.

Talsvert úrkoma hefur verið undanfarna daga en í dag byrjar að kólna í veðri og má búast við að skúrirnar á sunnanverðu og vestanverðu landinu breytist yfir í él þegar líður á daginn. Búast má við dimmum éljum, einkum á fjallvegum, samfara allhvössum vindi. Akstursskilyrði gætu því orðið erfið þegar verst lætur.

Það heldur síðan áfram að kólna í vikunni og fram á fimmtudag er útlit fyrir suðlæga eða suðvestlæga átt með éljum eða snjókomu Sunnan- og Vestanlands, en áfram björtu veðri fyrir norðan og austan. Frost 0 til 8 stig, mest í innsveitum fyrir norðan.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira