Handbolti

Tvær íslenskar sigurgöngur í gangi á EM í handbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson og Dagur Sigurðsson.
Guðmundur Guðmundsson og Dagur Sigurðsson. Vísir/EPA og Getty

Tvö lið hafa unnið fjóra leiki í röð á Evrópumótinu í handbolta í Póllandi og svo vill til að það eru íslenskir þjálfarar við stjórnvölinn hjá þeim báðum.

Þjóðverjar og Danir unnu leiki sína í milliriðli tvö í gær og eru bæði með af fullum krafti í baráttunni um sæti í undanúrslitum Evrópumótsins.

Sigur Norðmanna á Pólverjum á laugardaginn sá til þess að þriggja leika sigurganga pólska liðsins varð ekki lengri en norska liðið hefur nú unnið þrjá leiki í röð síðan liðið tapaði á móti Íslandi í sínum fyrsta leik.

Lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar í danska landsliðinu hafa unnið fyrstu fjóra leiki sína á Evrópumótinu en þeir komu til baka á móti Spánverjum eftir að hafa verið þremur mörkum undir í hálfleik og unnu seinni hálfleikinn með sjö marka mun, 16-9. Sigur Dana þýðir að þeir eru í frábærum málum og eru nú afar líklegir til að keppa um verðlaunasæti á Evrópumótinu.

Danska liðið hefur sex stig eftir þrjá leiki eða jafnmörg og Þýskaland sem hefur spilað einum leik meira en Danir. Þýskaland á bara eftir einn leik á móti Danmörku í lokaumferð milliriðilsins en Danir spila áður við Svía.

Lærisveinar Dags Sigurðssonar töpuðu sínum fyrsta leik í keppninni á móti Spánverjum og voru síðan fjórum mörkum undir í hálfleik í leik tvö á móti Svíum. Dagur talaði sína menn til í hálfleik, þýsku strákarnir snéru við leiknum og unnu Svía með einu marki. Þýska liðið hefur síðan bætt við þremur sigrum sem komu á móti Slóveníu, Ungverjalandi og Rússlandi.

Þýska liðið verður alltaf undir í innbyrðisleikjum á móti Spánverjum og það stefnir því í úrslitaleik á móti Dönum í lokaumferðinni um sæti í undanúrslitunum. Það má búast við því að íslenskan þjóðin fylgist þá spennt með þegar íslensku þjálfararnir mætast í slíkum úrslitaleik.
Fleiri fréttir

Sjá meira