Handbolti

Tvær íslenskar sigurgöngur í gangi á EM í handbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson og Dagur Sigurðsson.
Guðmundur Guðmundsson og Dagur Sigurðsson. Vísir/EPA og Getty

Tvö lið hafa unnið fjóra leiki í röð á Evrópumótinu í handbolta í Póllandi og svo vill til að það eru íslenskir þjálfarar við stjórnvölinn hjá þeim báðum.

Þjóðverjar og Danir unnu leiki sína í milliriðli tvö í gær og eru bæði með af fullum krafti í baráttunni um sæti í undanúrslitum Evrópumótsins.

Sigur Norðmanna á Pólverjum á laugardaginn sá til þess að þriggja leika sigurganga pólska liðsins varð ekki lengri en norska liðið hefur nú unnið þrjá leiki í röð síðan liðið tapaði á móti Íslandi í sínum fyrsta leik.

Lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar í danska landsliðinu hafa unnið fyrstu fjóra leiki sína á Evrópumótinu en þeir komu til baka á móti Spánverjum eftir að hafa verið þremur mörkum undir í hálfleik og unnu seinni hálfleikinn með sjö marka mun, 16-9. Sigur Dana þýðir að þeir eru í frábærum málum og eru nú afar líklegir til að keppa um verðlaunasæti á Evrópumótinu.

Danska liðið hefur sex stig eftir þrjá leiki eða jafnmörg og Þýskaland sem hefur spilað einum leik meira en Danir. Þýskaland á bara eftir einn leik á móti Danmörku í lokaumferð milliriðilsins en Danir spila áður við Svía.

Lærisveinar Dags Sigurðssonar töpuðu sínum fyrsta leik í keppninni á móti Spánverjum og voru síðan fjórum mörkum undir í hálfleik í leik tvö á móti Svíum. Dagur talaði sína menn til í hálfleik, þýsku strákarnir snéru við leiknum og unnu Svía með einu marki. Þýska liðið hefur síðan bætt við þremur sigrum sem komu á móti Slóveníu, Ungverjalandi og Rússlandi.

Þýska liðið verður alltaf undir í innbyrðisleikjum á móti Spánverjum og það stefnir því í úrslitaleik á móti Dönum í lokaumferðinni um sæti í undanúrslitunum. Það má búast við því að íslenskan þjóðin fylgist þá spennt með þegar íslensku þjálfararnir mætast í slíkum úrslitaleik.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira