Körfubolti

Lögreglan svaraði kvörtunum með því að mæta með Shaq | Myndband

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Shaquille O'Neal
Shaquille O'Neal Vísir/Getty

Lögregla í Flórída í Bandaríkjunum brást skemmtilega við á dögunum þegar lögreglustöðinni barst kvörtun vegna hávaða frá krökkum sem voru að leika sér úti í körfubolta.

Bobby White, lögreglumaður í Gainesville, mætti á staðinn en í stað þess að banna krökkunum að leika sér í körfubolta þá hvatti hann krakkana til að vera úti að hreyfa sig. Hann gerði gott betur og spilaði með krökkunum.

Lögreglan gaf út yfirlýsingu á fésbókarsíðu sinni þar sem stóð að það væri alltaf stefna deildarinnar að leyfa krökkum að vera krakkar.

Myndband Bobby White af því þegar hann mætti og lék sér með krökkunum vakti mikla athygli og yfir fjórtán milljón manns horfðu á það á netinu.

Bobby White lofaði líka að koma aftur og þá með góðan liðsauka. Það stóð hann heldur betur við. Lögreglumaðurinn kom nefnilega aftur og þá með NBA-goðsögnina Shaquille O'Neal með sér. Báðir léku sér með krökkunum og skemmtu sér konunglega.

Krakkarnir munu líka aldrei gleyma þeim degi þegar Shaquille O'Neal mætti á svæðið og lék sér með þeim í körfubolta.

Shaquille O'Neal er einn af stærstu stjörnum NBA-deildarinnar og fjórfaldur NBA-meistari. Hann var kosinn besti leikmaður NBA-deildarinnar árið 2000. Eftir að ferlinum lauk hefur hann starfað sem sjónvarpsmaður í tengslum við útsendingar TNT frá NBA-deildinni.

Hér fyrir neðan má sjá myndbönd af þessu athyglisverða framtaki Bobby White og Shaquille O'Neal.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira