Körfubolti

Enginn Duncan með í kvöld þegar San Antonio og Golden State mætast loksins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tim Duncan.
Tim Duncan. Vísir/Getty

Golden State Warriors og San Antonio Spurs hafa verið í nokkrum sérflokki í NBA-deildinni í vetur og hafa þau bæði unnið yfir 86 prósent leikja sinna sem er magnaður árangur í bestu körfuboltadeild í heimi.

NBA-áhugafólk hefur því beðið spennt eftir að þessi tvö frábæru lið mætist loksins á þessu tímabili og í kvöld er komið að þessum fyrsta leik liðanna af fjórum.

Nú er hinsvegar ljóst að San Antonio Spurs mætir ekki með sitt sterkasta lið í leikinn sem fer fram á heimavelli Golden State Warriors því goðsögnin Tim Duncan verður ekki með í leiknum.

Tim Duncan er að glíma við eymsli í hægra hné og hefur misst aðeins af leikjum að undanförnu. Hann var þó með í sigri á Los Angeles Lakers á föstudaginn en Gregg Popovich ætlar að passa upp á gamla manninn og hvílir hann í kvöld.

David West kemur væntanlega inn í byrjunarliðið fyrir Tim Duncan og þá mun serbneski miðherjinn Boban Marjanovic einnig fá fleiri mínútur.

Tim Duncan er 39 ára gamall og á sínum nítjánda tímabili í NBA-deildinni. Hann hefur spilað 37 af 44 leikjum liðsins í vetur og er með 8,9 stig, 7,5 fráköst og 3,0 stoðsendingar að meðaltali á 25,9 mínútum.

Golden State Warriors vann fyrstu 24 leiki sína og er stanslaust borið saman við lið Chicago Bulls frá 1995-96 sem vann 72 af 82 leikjum.

Það munar samt bara tveimur leikjum á Golden State Warriors (40-4) og San Antonio Spurs (38-6) en Spurs-liðið hefur nú unnið þrettán leiki í röð.

NBAFleiri fréttir

Sjá meira