Handbolti

Liðið sem tapaði fyrir Íslandi gæti komist í undanúrslit EM í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Petersson í leiknum á móti Noregi.
Alexander Petersson í leiknum á móti Noregi. Vísir/EPA

Norðmenn hafa unnið þrjá leiki í röð á EM í handbolta í Póllandi og gætu tryggt sér sæti í undanúrslitum í kvöld verði úrslit beggja leikja þeim hagstæð.

Norðmenn mæta þá Makedóníumönnum en Makedónía hefur tapað báðum sínum leikjum í milliriðlinum og á ekki möguleika á því að komast í hóp átta efstu liðanna í Evrópumótinu.

Norðmenn tryggja sér sæti í undanúrslitum á EM ef þeir vinna Makedóníu í kvöld og Pólverjar tapa stigum á móti Hvíta Rússlandi í leiknum á eftir. Það er þó líklegra að allt saman ráðist í lokumferðinni á miðvikudaginn.

Það hefur margt breyst hjá norska liðinu sem tapaði fyrir Íslandi í fyrsta leik en hefur síðan unnið alla leiki sína.

Norðmenn hafa unnið bæði Króatíu og Pólland í keppninni og eru því með betri innbyrðisstöðu gegn þeim. Króatía og Pólland eru bæði með fjögur stig í milliriðlinum eða tveimur stigum minna en Frakkland og Noregur sem eru efst og jöfn.

Frakkar eiga bara eftir leik gegn Noregi og Króatar eiga bara eftir leik á móti Póllandi. Króatar geta því aldrei komist upp fyrir Norðmenn en það geta Pólverjar sem eiga eftir tvo leiki eftir eins og Noregur.

Pólland vann Frakkland í riðlakeppninni og því gæti svo farið að Frakkland, Noregur og Pólland verði öll jöfn að stigum og með einn sigur hvert í innbyrðisleikjum. Hvert mark gæti því skipti miklu máli í leik Norðmanna og Frakka í lokumferðinni.

Ef Norðmenn og Pólverjar vinna leiki sína í dag þá þarf eitthvað að eftirtöldu að ganga upp hjá Norðmönnum ætli þeir að keppa um verðlaun í fyrsta sinn.

- Noregur nær í stig á móti Frakklandi
- Noregur tapar með fjórum mörkum eða minna á móti Frakklandi
- Pólland tapar stigi á móti Króatíu

Norðmenn fagna sigri á móti Póllandi. Vísir/EPA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira