Skoðun

Hún er ekki glæpamaður þó hún leiti fóstureyðingar!

Bryndís Bjarnadóttir skrifar
„Við vorum nýgift árið 2001 og konan mín gengin 20 vikur á sinni fyrstu meðgöngu þegar uppgötvaðist að barnið myndi annað hvort fæðast andvana eða lifa örfáar klukkustundir sökum alvarlegra fósturgalla. Okkur var tjáð að undir lögsögu þessa lands væri sú leið ein fær að ganga fulla meðgöngu. Við fylltumst bæði mikilli reiði. Okkur leið eins og við værum algerlega ein og yfirgefin. Okkur voru ekki einu sinni veittar nauðsynlegar upplýsingar. Þegar við hófum að kanna hvert við gætum leitað eftir fóstureyðingu leið okkur eins og glæpamönnum að sýsla á svarta markaðinum jafnvel þó við ættum rétt á að ferðast og rétt á upplýsingum. Heilbrigðisstarfsfólk brást okkur ekki aðeins heldur landið okkar.“

Hér lýsir eiginmaður Gaye Edwards reynslu þeirra hjóna af harðneskjulegri fóstureyðingarlöggjöf á Írlandi og afleiðingum hennar. Gaye Edwards verður gestur Íslandsdeildar Amnesty International á pallborðsumræðum um fóstureyðingarlöggjöfina og kvikmyndasýningu, miðvikudaginn 27. janúar kl. 19:30 í Bíó Paradís, ásamt Sorcha Tunney frá Amnesty International á Írlandi og Camille Tunney kvikmyndagerðarkonu. Heimildarmyndin, Take the boat verður til sýningar að pallborðsumræðum loknum en Camille Hamet er framleiðandi myndarinnar og franska leikkonan, Catherine Deneuve er sögumaður.

Löggjöf um fóstureyðingu á Írlandi er ein sú strangasta í heimi. Að frátöldum löndum eins og Andorra, San Marino og Möltu, er Írland eina Evrópuríkið sem bannar konum og stúlkum að leita sér fóstureyðingar, jafnvel þó um nauðgun eða sifjaspell ræðir, þegar fóstrið er ekki lífvænlegt, fósturgallar eru alvarlegir eða þegar þungun stefnir heilsu konu í hættu. Konur og stúlkur geta átt yfir höfði sér allt að 14 ára fangelsisdóm gerist þær sekar um að gangast undir fóstureyðingu á Írlandi og heilbrigðisstarfsfólk er undir sömu sökina selt aðstoði það konu og stúlkur í þessum tilgangi. Heilbrigðistarfsfólki er ekki einu sinni gert kleift samkvæmt lögum að veita konum upplýsingar um hvert þær geta leitað eftir aðstoð.

Mannréttindi brotin á hverjum degi

Írsk stjórnvöld státuðu sig nýverið af því að samþykkja lögleiðingu á hjónaböndum samkynhneigðra og berja sér á brjóst fyrir að vera opið og lýðræðislegt samfélag. Engu að síður eru mannréttindi kvenna og stúlkna í landinu brotin á hverjum einasta degi. Skýrsla Amnesty International sem kom út í fyrra og ber heitið, Hún er ekki glæpamaður: áhrif laga um fóstureyðingar á Írlandi, greinir frá átakanlegum tilfellum þar sem írsk yfirvöld neita þunguðum konum og stúlkum um nauðsynlega heilbrigðisþjónustu, oft með skelfilegum afleiðingum. Savita Halappanavar lét lífið á meðgöngu árið 2013 þegar hún var gengin 17 vikur í kjölfar blóðeitrunar en írskir læknar aðhöfðust ekkert af ótta við lögsókn og fangavist.

Á hverju ári neyðast 4000 írskar konur og stúlkur til að ferðast til Bretlands til að gangast undir fóstureyðingu með tilheyrandi fjárhagslegum og andlegum kostnaði. Langflestar konur og stúlkur sem Amnesty International ræddi við á Írlandi sögðu að skömmin og úskúfunin sem þær upplifðu við að flýja land, til að leita fóstureyðingar, væri gífurleg. Þær sem ekki geta ferðast til annarra landa, til dæmis hælisleitendur eða fátækar konur, standa frammi fyrir tveimur afarkostum: að leita sér ólöglegrar fósturreyðingar og hætta á fangelsisvist eða ganga fulla meðgöngu þvert gegn vilja sínum.

Írsk stjórnvöld brjóta gróflega mannréttindi kvenna og stúlkna með því að banna fóstureyðingar í öllum tilvikum nema einu. Blátt bann við fóstureyðingum brýtur á rétti kvenna til að lifa frjálsar undan ofbeldi og mismunun, réttindum til lífs og andlegrar og líkamlegrar heilsu, og réttinum til að vera fjáls undan pyndingum og annarri illri og vanvirðandi meðferð. Afglæpavæða verður fóstureyðingar í landinu og fella brott ákvæði í stjórnarskrá landins sem metur líf fóstursins jafnhátt og líf móðurinnar. Íslandsdeild Amnesty vonar að almenningur láti sig málefnið varða og fjölmenni í Bíó Paradís næstkomandi miðvikudag.








Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×