Erlent

Stuðningsmenn Trump fögnuðu þegar hann hét því að drepa fjölskyldur hryðjuverkamanna

Bjarki Ármannsson skrifar
Donald Trump nýtur enn mikilla vinsælda í Bandaríkjunum nú þegar stutt er í að forval Repúblikanaflokksins hefjist.
Donald Trump nýtur enn mikilla vinsælda í Bandaríkjunum nú þegar stutt er í að forval Repúblikanaflokksins hefjist. Vísir/Getty

Forsetaframbjóðandinn Donald Trump nýtur enn mikilla vinsælda í Bandaríkjunum nú þegar stutt er í að forval Repúblikanaflokksins hefjist, þrátt fyrir ýmsar verulega umdeildar fullyrðingar hans í kosningabaráttunni.

Helst hefur Trump vakið athygli fyrir það að heita að meina öllum múslimum aðgöngu að Bandaríkjunum tímabundið ef hann nær kjöri. Blaðamaður New Yorker greinir svo í nýjasta tímariti blaðsins frá því að Trump hafi lofað því að ráðast gegn konum og börnum hryðjuverkamanna á fundi með stuðningsmönnum sínum í desember.

Stuttu fyrir fundinn, sem fór fram í Mesa í Arizona-ríki, hafði Trump lýst því yfir í fjölmiðlum að til að stöðva hryðjuverkamenn sem gætu mögulega gert árás á Bandaríkin þyrfti að ráðast gegn (e. take out) fjölskyldur þeirra. Sjónvarpsmaðurinn Bill O‘Reilly bar þá spurningu upp við Trump á fundinum hvort hann myndi í alvörunni kalla eftir drápi kvenna og barna ef hann yrði forseti.

Að því er greint er frá í New Yorker, svaraði Trump því einfaldlega að hann myndi ganga mjög langt. Við þetta brutust út mikil fagnaðarlæti meðal viðstaddra.

„„Yeah baby,“ öskraði einn maður nærri mér,“ segir í frásögn blaðamannsins Ryan Lizza. „Aldrei áður hef ég verið viðstaddur stjórnmálasamkomu þar sem fólk klappar fyrir morði á konum og börnum.“


Tengdar fréttir

Palin styður framboð Trump

Sarah Palin, fyrrverandi varaforsetaefni, er áhrifamesti einstaklingurinn innan Repúblikanaflokksins sem lýsir yfir stuðningi við frambjóðanda.

Ræða að banna Trump

Breskir þingmenn deila nú um að meina Donald Trump að koma til Bretlands vegna ummæla hans og tillagna.

Hagræddu sannleikanum að venju

Sjöttu kappræður forsetaframbjóðenda Repúblikana fóru fram í gær þar sem sjö fylgismestu frambjóðendur Repúblikana deildu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira