Enski boltinn

Að reka Van Gaal og verða af Meistara­deildar­sæti mun kosta United milljarða

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Rendurnar þrjá borga vel.
Rendurnar þrjá borga vel. vísir/getty
Óvíst er hvort Louis van Gaal, knattspyrnustjóri Manchester United, lifi af í starfi á Old Trafford þessa vikuna eftir enn ein slæmu úrslitin um síðustu helgi.

Manchester United tapaði, 1-0, fyrir Southampton á heimavelli á laugardaginn þar sem í tíunda sinn í ellefu heimaleikjum var markalaust í hálfleik.

„Ég skil fólkið vel að baula á okkur. Það var rétt hjá þeim. Við eigum að skemmta fólkinu og það erum við ekki að gera,“ sagði Van Gaal svekktur í viðtali eftir leikinn.

Margir stuðningsmenn United og breskir fótboltapennar kalla eftir því að Hollendingurinn verði rekinn, en það mun kosta sitt. Rétt eins og það mun kosta Manchester United fúlgur fjár að komast ekki í Meistaradeildina.

Samkvæmt frétt á fótboltavefnum Goal.com á Van Gaal tíu milljónir punda eða tvæpa tvo milljarða inni hjá United sem hann á að fá borgað á næstu 17 mánuðum í starfi. Hann er með sjö milljónir punda í laun á ári.

Verði hann rekinn þarf Manchester United væntanlega að borga upp allan samninginn auk starfslokasamnings og þá þarf að gera upp við fimm manna starfslið hans sem Van Gaal tók með sér frá Hollandi.

Stjórn Manchester United þarf að ákveða hvort það sé kostnaðurinn sem félagið vill taka á sig eða eiga í hættu á að komast ekki í Meistaradeildina. United er fimm stigum á eftir Tottenham sem er í fjórða sætinu þegar 15 umferðir eru eftir.

Manchester United gerði risastóran treyjusamning við Adidas sem tók gildi fyrir tímabilið. Adias þarf samkvæmt honum að borga United 75 milljónir punda á ári, en komist liðið ekki í Meistaradeildina dragast 23 milljónir punda eða um fjórir milljarðar íslenskra króna frá upphæðinni.

Komist United ekki í Meistaradeildina verður það einnig af tekjum frá UEFA og sjónvarpstekjum, en bara fyrir að komast í Meistaradeildina ætti United von á 30 milljónum punda frá UEFA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×