Enski boltinn

Allt á floti hjá Eggert og Grétari Rafni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Eggert Gunnþór hefur spilað vel fyrir Fleetwood að undanförnu.
Eggert Gunnþór hefur spilað vel fyrir Fleetwood að undanförnu. vísir/getty

Ekkert verður af leik Fleetwood Town og Walsall í ensku C-deildinni í fótbolta í kvöld vegna vallaraðstæðna, en Highbury-völlurinn, heimavöllur Fleetwood, er á floti.

Eggert Gunnþór Jónsson er leikmaður Fleetwood og Grétar Rafn Steinsson yfirmaður knattspyrnumála hjá félaginu.

Scott Duncan, dómari leiksins, tók stöðuna á vellinum nú rétt fyrir þrjú og kom í ljós að ekki var hægt að spila á honum.

„Vallarstjórinn hjá Fleetwood hefur unnið hörðum höndum en því miður er afskaplega mikið vatn á honum enn þá,“ sagði Duncan eftir að hann tók ákvörðunina. „Markteigarnir eru hættulegir og kantarnir líka. Ég verð að taka þessa ákvörðun með öryggi leikmanna í huga.“

Þetta er í annað sinn sem fresta þarf heimaleik Fleetwood gegn Walsall, en liðin áttu upphaflega að mætast 12. desember.

Fleetwood er í harðri fallbaráttu í C-deildinni. Liðið er í 21. sæti af 24 eftir 26 umferðir með 28 stig.
Fleiri fréttir

Sjá meira