Handbolti

Dujshebaev sá um pabba sinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Talant Dujshebaev er þjálfari ungverska landsliðsins.
Talant Dujshebaev er þjálfari ungverska landsliðsins. Vísir/AFP
Spánn þurfti að hafa fyrir því að leggja Ungverjaland að velli í milliriðli 2 á EM í Póllandi í dag. Það tókst þó eftir spennandi lokamínútur, 31-29.

Þar mættust feðgarnir Alex Dujshebaev, sem leikur með Spánverjum, og Talant Dujshebaev sem er þjálfari ungverska landsliðsins.

Alex fór langt með að tryggja sigur Spánverja er hann kom þeim 30-28 yfir þegar rúm mínúta var til leiksloka. Tibor Gazdag minnkaði muninn úr vítakasti þegar 44 sekúndur voru eftir en Spánverjar gerðu vel í lokasókninni, fengu vítakast rétt áður en leiktíminn rann út og tryggðu sér tveggja marka sigur.

Staðan var jöfn, 15-15, að loknum fyrri hálfleik en þrátt fyrir að Spánverjar hafi verið skrefi á undan í þeim síðari gekk þeim illa að hrista Ungverjana almennilega af sér.

Valero Rivera skoraði fimm mörk fyrir Spán en markahæstur hjá Ungverjum var stórskyttan Laszlo Nagy með níu mörk. Roland Mikler átti fínan leik í marki Ungverja og varði þrettán skot.

Sigurinn þýðir að Spánn er nú með 6 stig í milliriðli 2, rétt eins og Þýskaland og Danmörk. Danir mæta Svíum síðar í kvöld og geta með sigri tyllt sér í efsta sæti riðilsins.

Guðmundur Guðmundsson þjálfar danska landsliðið, sem hefur unnið alla leiki sína á mótinu, en Dagur Sigurðsson þjálfar þýska liðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×