Erlent

Flótta­fangarnir í Kali­forníu: "Hannibal Lecter gengur laus“

Atli ísleifsson skrifar
Jonathan Tieu (20 ára), Bac Duong (43 ára) og Hossein Nayeri (37 ára).
Jonathan Tieu (20 ára), Bac Duong (43 ára) og Hossein Nayeri (37 ára). Mynd/lögregla í kaliforníu
Lögregla í Kaliforníu leitar enn þriggja fanga sem sluppu úr fangelsi í ríkinu síðasta föstudag. Saksóknari líkir einum flóttafanganna við skáldsagnapersónuna og raðmorðingjann Hannibal Lecter.

Í frétt VG kemur fram að alríkislögreglan FBI hafi heitið 400 þúsund Bandaríkjadölum til þess sem veiti upplýsingar sem leiða til þess að mennirnir verði gripnir.

Föngunum, sem allir hafa verið dæmdir fyrir alvarleg ofbeldisbrot, tókst með ótrúlegum hætti að sleppa úr fangelsinu með því að brjóta sér leið inn í rými fyrir pípulagnir, saga sundur járnrimla og lagnir, komast upp á þak og síga þaðan niður með því að binda saman lök.

Djöfullegur

Saksóknari Heather Brown hefur nú gagnrýnt lögreglu fyrir leyfa einum mannanna, Hossein Nayeri, að sleppa, en Brown lýsir honum sem „djöfullegum“.

Hún segist vera í áfalli vegna frétta af því að maðurinn, sem sé 37 ára, hafi sloppið. „Fyrstu viðbrögð mín voru „guð minn góður, þeir eru búnir að sleppa Hannibal Lecter“,“ segir Brown í samtali við Orange County Register og vísar þar til persónunnar sem Anthony Hopkins túlkaði í myndinni Lömbin þagna.

Skáru getnaðarliminn af

Nayeri var meðal annars sakfelldur fyrir frelsissvptingu og pyndingar. Árið 2012 á hann, ásamt hópi manna, að hafa rænt eiganda sölustaðar marijúana í Kaliforníu og reynt að kúga út úr honum fé. Á Nayeri að hafa slegið manninn með skammbyggu og pyndað hann með gasbrennara. Að lokum eiga þeir að hafa skorið getnaðarliminn af manninum.

Lögregla leitar enn þeirra Nayeri, auk Jonathan Tieu og Bac Duong sem sagðir eru hafa tengsl við víetnamskar glæpaklíku í ríkinu.

Húsleit hefur verið gerð á rúmlega þrjátíu stöðum, en enn hefur ekki tekist að hafa hendur í hári mannanna.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×