Enski boltinn

Messan: Íslendingar létu Van Gaal heyra það í stúkunni á Old Trafford

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hjörvar Hafliðason og sérfræðingar í Messunni fór yfir frammistöðu Manchester United liðsins en liðið tapaði á móti Southampton í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi.

Gestir Hjörvars í Messunni að þessu sinni voru þeir Arnar Gunnlaugsson og Þorvaldur Örlygsson sem báðir spiluðu í ensku úrvalsdeildinni á sínum tíma.

Strákarnir fóru yfir innkomu Adnan Januzaj í leikinn en hann gat aukaspyrnu skömmu eftir að hann kom inná og úr þeirri aukaspyrnu skoraði Charlie Austin sigurmark Southampton.

„Hann þarf aðeins að fara að girða sig í brók þessi drengur. Hann byrjaði mjög vel en líkamstjáningin hans núna er eins og honum sé alveg skítsama. Hann þarf aðeins að átta sig á því fyrir hvaða klúbb hann er að spila en hann er með fullt af hæfileikum," sagði Arnar Gunnlaugsson um Adnan Januzaj.

Hjörvar sýndi myndband af stuðningsmönnum Manchester United sem voru afar ósáttir með knattspyrnustjórann Louis van Gaal og létu hann heyra það eftir að liðið lenti undir. Hjörvar hélt því fram að þar hefði verið Íslendingar á ferðinni. „Það er gott að það séu Íslendingar sem keyra þetta í gegn," sagði Hjövar.

„Það er frábært að einhver á Old Trafford skuli hafa smá tilfinningar því ekki hefur karlinn þær á bekknum. Situr þarna og skrifar," sagði Arnar.

„Öll þessi núll-núll hljóma ekkert rosalega vel og það er ekki gaman fyrir stuðningsmenn United að fá þetta framan í sig leik eftir leik," sagði Þorvaldur Örlygsson.

Arnar og Þorvaldur ræddu líka leikskipulag Louis van Gaal og það sem þeim finnst vanta en það er hægt að sjá alla umræðuna í myndbandinu í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×