Erlent

Straumur flóttafólks til Evrópu: ESB saka Grikki um alvarlega vanrækslu

Atli Ísleifsson skrifar
Grikkir hafa átt í vandræðum með að takast á við straum flóttafólks frá Miðausturlöndum.
Grikkir hafa átt í vandræðum með að takast á við straum flóttafólks frá Miðausturlöndum. Vísir/AFP
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins sakar í nýrri skýrslu grísk yfirvöld um að hafa alvarlega vanrækt skyldur sína þegar kemur að stjórnun á ytri landamærum sambandsins.

Fleiri hundruð þúsunda flóttamanna hafa komið frá Miðausturlöndum til Evrópu, um Grikkland síðustu mánuði.

Mat framkvæmdastjórnarinnar var gert í nóvember síðastliðinn og lýsir víðtækum vanköntum þegar kemur að stjórnun grískra yfirvalda á ástandinu.

Grikkir eru aðilar að Schengen-svæðinu og því skyldugir til að stjórna komu fólks frá ríkjum utan Schengen og inn á svæðið. Yfirvöld hafa fengið þriggja mánaða frest til að bæta ástandið.

Rúmlega 850 þúsund flóttamenn komu til Grikklands á síðasta ári. 44 þúsund til viðbótar hafa komið til landsins það sem af er ári, flestir frá meginlandi Tyrklands og til eyjanna Lesbos, Samos og Kos.

Í skýrslu framkvæmdastjórnarinnar segir að Grikkir hafi ekki framkvæmt skráningar, tekið fingraför og skráð nöfn flóttafólks líkt og lög gera ráð fyrir.

Í frétt BBC segir að ef grísk yfirvöld séu ekki fær um að gera nauðsynlegar breytingar muni framkvæmdastjórnin mögulega veita öðru Schengen-ríki heimild til að koma upp tímabundnu landamæraeftirliti á innri landamærum svæðisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×