Innlent

„Getraun dagsins, hver fær of mikið?“

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Finnur telur að hlutur verslunarinnar af mjólkinni sé afar lítill.
Finnur telur að hlutur verslunarinnar af mjólkinni sé afar lítill. vísir/aðsend/pjetur

„Getraun dagsins. Hver fær of mikið? Munið að neytendur eru búnir að borga 50-60 krónur af hverjum lítra áður en þeir koma í búðina,“ ritar Finnur Árnason, forstjóri Haga, á Facebook-síðu sína. Með fylgir mynd sem sýnir hvernig verðið á mjólkurlítranum úti í Bónus er samansett.

Á myndinni má sjá að innkaupsverðið á mjólkurlítranum er 116 krónur, virðisaukaskatturinn nemi fjórtán krónum og níu krónur renni í vasa verslunarinnar. Myndin er að öllum líkindum svar við skýrslu Bændasamtakanna sem birt var í dag.

Í skýrslunni benda Bændasamtökin á hluti sem þau segja sýna fram á að verslunin í landinu skili ekki ávinningi af styrkingu krónunnar og lækkun gjalda ýmis konar til neytenda. Því sé vöruverð á Íslandi hærra en það ætti að vera. Verslunin hirði sjálf meira og minna alla hagræðingu í landbúnaði og lækkun gjalda.

Í úttekt Bændasamtakanna er meðal annars vitnað til skýrslu Samkeppnisstofnunar um að styrking krónunnar hafi ekki skilað sér til neytenda á árunum 2011 til 2014, úttektar verðlagseftirlits ASÍ um að breyting á vörugjöldum og virðisaukaskatti um áramótin 2014-2015 hafi ekki skilað sér og þrátt fyrir lækkun magntolla á nautakjöt um tvo þriðju á árinu 2014 hafi verðið hækkað um 15 prósent til neytenda.

„Ég held að þessi framsetning bændasamtakanna á þessum tímapunkti sé ekki tilviljun. Ég held hún sé dæmigerð smjörklípa. Það standa jú yfir viðræður við stjórnvöld um gerð nýs búvörusamnngs,“ sagði Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, í kvöldfréttum Stöðvar 2. Hann og Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, áttust við í Kastljósi RÚV í kvöld en þar sagði Andrés meðal annars að samtökin hefðu í hyggju að hrekja tölur Bændasamtakanna á næstu dögum.

Getraun dagsins. Hver fær of mikið? Munið að neytendur eru búnir að borga 50-60 krónur áður en þeir koma í búðina:-)

Posted by Finnur Árnason on Wednesday, 27 January 2016

Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira