Handbolti

Innistæðan búin hjá Guðmundi sem þarf að fara ef Danir komast ekki á ÓL

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðmundur er ekki vinsæll eftir tapið í gærkvöldi.
Guðmundur er ekki vinsæll eftir tapið í gærkvöldi. vísir/epa

„Danmörk er svo sannarlega úr leik á EM og nú standa öll spjót að þjálfaranum sem er ábyrgur fyrir árangrinum á síðustu tveimur mótum.“

Svona hefst pistill Dan Philipsen, ritstjóra handboltavefs TV2 í Danmörku, þar sem hann gagnrýnir Guðmund Guðmundsson, þjálfara danska landsliðsins, fyrir árangurinn á síðustu tveimur stórmótum.

Sjá einnig: „Guðmundur á að halda starfinu“

Danir töpuðu fyrir Þýskalandi í lokaleik milliriðils tvö á Evrópumótinu í Póllandi í gær og misstu þannig af sæti í undanúrslitum annað stórmótið í röð. Danir komust heldur ekki í undanúrslit á HM í Katar.

„Misheppnað. Þetta er versta orð sem íþróttamaður getur heyrt eftir keppni. En það er ekkert hægt að fara í kringum þetta. EM 2016 var misheppnað hjá danska liðinu,“ segir Philipsen.

Guðmundur stýrir nokkrum af bestu handboltamönnum heims. vísir/epa

Ekki nógu gott
Danski handboltasérfræðingurinn skellir skuldinni á Guðmund og segir að innistæða hans hjá Dönum sé uppurinn.

„Það þýðir samt ekki að það eigi að reka hann strax. Við sáum fyrir fjórum dögum [þegar Danmörk vann Spán] að Guðmundur er hæfileikaríkur þjálfari. En hann er að stýra einu besta landsliði heims og hefur á síðustu tveimur mótum ekki spilað um verðlaun. Það er ekki nógu gott, þjálfari,“ segir Philipsen.

Leið Dana á Ólympíuleikanna verður erfiðari vegna tapsins í gær, en liðið verður í riðli með tveimur Evrópuþjóðum í forkeppni Ólympíuleikana.

Verði Spánn Evrópumeistari verður Danmörk með Evrópuþjóðunum Slóveníu og Svíþjóð í riðli, ef Króatía verður Evrópumeistari verða mótherjarnir Þýskaland og Noregur.

Ef Þýskaland verður Evrópumeistari verða Danir með Króatíu og Svíþjóð í riðli í í forkeppni Ólympíuleikanna en ef Þýskaland vinnur verða það Króatar og Norðmenn.

„Það kemur í ljós hvað verður um Guðmund í vor þegar Danir taka þátt í forkeppni Ólympíuleikana. Við komum aftur að gjaldkeranum sem bendir á að Guðmundur á enga innistæðu eftir. Komist Danmörk ekki til Ríó er þetta búið hjá Guðmundi Guðmundssyni. Þá getur hann ekki lengur sinn þessu starfi,“ segir Dan Philipsen.


Tengdar fréttir

„Guðmundur á að halda starfinu“

Sérfræðingur TV 2 segir að þrátt fyrir skelfilegan árangur á EM í Póllandi eigi Guðmundur Guðmundsson að fá tækifæri til að koma Dönum til Ríó.
Fleiri fréttir

Sjá meira