Innlent

Börkur segist hafa fengið morðhótun í eldhúsinu á Litla-Hrauni eftir að Sigurður lést

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Börkur yfirgefur Héraðsdóm Suðurlands í morgun. Hann heldur á miða sem á stendur: "Hvenær drepur maður mann, og hvenær drepur maður ekki mann?“
Börkur yfirgefur Héraðsdóm Suðurlands í morgun. Hann heldur á miða sem á stendur: "Hvenær drepur maður mann, og hvenær drepur maður ekki mann?“ Vísir

Börkur Birgisson bar vitni á eftir Annþóri Kristjáni Karlssyni við aðalmeðferð í máli sem ríkissaksóknari hefur höfðað gegn þeim en þeir eru ákærðir fyrir að hafa veist að samfanga sínum, Sigurði Hólm Sigurðssyni, í klefa hans á Litla-Hrauni með þeim afleiðingum að hann lést.

Frásögn Barkar af því sem gerðist áður en Sigurður dó inni á klefa var keimlík frásögn Annþórs af atvikum. Var meðal annars rætt um hurðina sem Sigurður skemmdi á gistiheimili og sagði Börkur að hann hefði verið vitni að því þegar hann sagði við Annþór að hann myndi bæta fyrir hurðina.

Sjá einnig: Tók ekki í hönd Sigurðar útaf fíkniefnum í rassgatinu

Vildi Börkur ekki meina að þarna hafi verið um einhvers konar innheimtu skuldar að ræða; Annþór hefði einfaldlega nefnt þetta með hurðina og Sigurður sagðist ætla að borga hana. Það hefði verið rætt í eldhúsinu á Litla-Hrauni en Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, spurði Börk sérstaklega út í eitt atvik í eldhúsinu sem til er á myndbandsupptöku.

Annþór og Börkur lýsa yfir sakleysi sínu í málinu.

Svelgdist á mjólkinni

Á upptökunni sést Sigurður drekka úr mjólkurglasi og leggja síðan glasið frá sér. Börkur tekur svo glasið og hellir mjólkinni úr því. Saksóknari sagði að framkoma Barkar á upptökunni liti ekki vingjarnlega út og bað Börk að útskýra hvers vegna hann hefði gert þetta.

„Hann var búinn að vera að drekka úr glasinu og honum svelgdist á. Hann sagði mér að hann ætlaði ekki að klára úr glasinu.. við vorum bara þarna í rýminu og ég vissi að hann ætlaði ekki að klára úr glasinu og meikaði ekki að ganga frá því,“ svaraði Börkur.

Hann sagði að Sigurður hefði augljóslega verið undir áhrifum lyfja og nefndi eins og Annþór „súbbann“. Sigurði virtist líða illa og hann hefði kúgast þar sem hann var í eldhúsinu að sötra mjólkina.

Að neðan má sjá Annþór og Börk yfirgefa Héraðsdóm Suðurlands í morgun ífylgd fangavarða.

Heyrði stunur frá Sigurði

Börkur lýsti því svo þegar hann leit inn í klefann til Sigurðar því hann heyrði stunur þaðan. Þá sá hann Sigurð vera að klöngrast upp í rúmið.

„Mig minnir að ég hafi kallað til hans en hann ansaði mér ekki og sneri baki í mig. Hann virtist ekki hafa fulla hreyfigetu,“ sagði Börkur en kvaðst ekki hafa áttað sig á það gæti verið eitthvað alvarlegt að. Þá sagði hann aðspurður aldrei hafa get Sigurði neitt.

Annþór hafði borið því við fyrr um morguninn að Sigurður hefði fengið „súbbann” hjá öðrum fanga á Litla-Hrauni, Elís Helga Ævarssyni. Verjandi Barkar, Sveinn Guðmundsson, spurði hann út í hvort hann hefði einhvern tímann átt í útistöðum við Elís Helga.

„Já, hann hefur ráðist á mig tvisvar í fangelsi,“ svaraði Börkur. Sveinn spurði þá hvort hann óttaðist Elís Helga.

Annþór og Börkur afplána þunga ofbeldisdóma á Litla-Hrauni.vísir/e.ól.

„Hann er náttla dæmdur morðingi“

„Ég meina, hann er náttla dæmdur morðingi og maður veit aldrei upp á hverju þessir menn taka,“ sagði Börkur en Elís Helgi hlaut 16 ára dóm fyrir morð árið 2000.

Börkur kvaðst ekki muna eftir því að Elís Helgi var einhvers staðar nálægur þegar þeir Annþór voru að ræða við Sigurð. Elís Helgi hafi hins vegar gefið sig á tal við Börk í eldhúsinu eftir að Sigurður lést:

„Þá kemur Elís til mín og segir mér að ef ég segi frá því að hann hafi látið Sigga fá súbbann þá muni hann drepa mig. Ég fékk morðhótun þarna í eldhúsinu.“


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×