Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Þór Þ. - FSu 94-58 | Þór rústaði grannaslagnum

Anton Ingi Leifsson í Icelandic Glacial-höllinni í Þorlákshöfn skrifar
Vance Hall, leikmaður Þórs.
Vance Hall, leikmaður Þórs. vísir/ernir

Þór Þorlákshöfn vann slaginn um Suðurlandið í Dominos-deild karla þegar liðið vann 36 stiga sigur á FSu í kvöld, 94-58. Leikurinn var liður í fimmtándu umferð deildarinnar og Þór fór því upp að hlið Njarðvíkur í fjórða til fimmta sæti.

Staðan var 35-24 í hálfleik, en í síaðri hálfleik voru heimamenn miklu, miklu betri og slátruðu gestunum. Vince Hall fór fremstur í flokki, en hann skoraði 33 stig. Lokatölur urðu 94-58.

Það var ljóst að það mikið reyna á lið Þór í þessum leik þar sem þeir spiluðu erfiðan leik gegn Keflavík á mánudaginn var þar sem þeir tryggðu sér sæti í bikarúrslitum Powerade-bikarsins. Það myndi koma í ljós úr hverju leikmenn liðsins væri gerðir, en þeir hefðu varla getað fengið betri leik til að koma sér í gírinn fyrir; grannaslagur gegn FSu.

Heimamenn í Þór byrjuðu vel og náðu fljótt góðu forskoti. Þeir spiluðu góða vörn, Ragnar hélt Woods nokkurn veginn niðri og fáir í liði FSu voru í takt við leikinn; sóknarleikurinn stirður og varnarleikurinn slakur. Staðan var orðin 17-8 fyrir heimamenn, en þá vöknuðu gestirnir.

Þeir breyttu stöðunni úr 17-8 í 18-17 sér í vil í upphafi annars leikhluta, en þá sögðu heimamenn aftur hingað og ekki lengra. Þeir stigu aftur á bensíngjöfina og byrjuðu að spila á nýjan leik eins og þeir voru að gera í byrjun fyrsta leikhluta. FSu hitti vel á kaflanum sem þeir náðu að komast yfir, en fóru að taka ótímabær skot aftur í öðrum leikhluta og ekki hitta.

Vince Hall setti niður tvo þrista í tveimur sóknum á tímapunkti í öðrum leikhluta og stúkan tók við sér. Hann kom þá Þórsurum í 35-24 og munurinn var svo einmitt ellefu stig í hálfleik eftir að Ragnar Nathanaelsson tróð undir lok hálfleiksins. Svakaleg tilþrif.

Gestirnir skoruðu fyrstu körfuna í þriðja leikhluta og einhverjir héldu að þeir myndu þá ganga á lagið. Það gerðist einmitt andstæðan. Heimamenn stigu enn meira á bensíngjöfina og voru í sjötta gír á tímapunkti, en gestirnir söknuðu Christopher Caird og Ara Gylfasonar gífurlega í sóknarleiknum.

Hægt og rólega varð munurinn meiri og meiri. Þórsarar spiluðu frábærlega og það voru margir sem lögðu lóð sín á vogarskálarnar; Davíð Ágústsson, Dabbi kóngur, kom inn með þrista af bekknum, Ragnar skilaði sínum stigum og Hall var magnaður í leiknum í kvöld.

Þegar fjórða leikhluti var flautaður á var munurin 28 stig og það var ljóst að það þyrfti alltof mikið að gerast til að vængbrotnir gestirnir gætu tekið eitthvað með sér úr þessum leik. Það varð svo raunin, en heimamenn léku sér að gestunum í síðari hálfleik sem létu margt og mikið fara í taugarnar á sér.

Lokatölur urðu svo 36 stiga sigur Þórsara í grannaslag, 94-58. Gestirnir voru vængbrotnir, en það afsakar þó ekki vandræðalega frammistöðu FSu á köflum. Þeir virtust á tímapunkti hættir að nenna berjast um lausa bolta undir körfunum, tóku hörmuleg þriggja stiga skot og þar fram eftir götunum.

Frábær sigur hjá Þór eftir sigurinn á mánudag og á fimmtudeginum fyrir viku unnu þeir svo Tindastól. Stígandi hjá liðinu í Þorlákshöfn. Hall var með grímu í kvöld eftir nefbrotið í síðasta leik og það stoppaði hann ekkert, en hann skilaði 33 stigum, níu fráköstum og þremur stoðsendingum. Fjórir leikmenn skiluðu meira en tíu stigum.

Hjá gestunum í FSu var Woods nánast einn á báti. Hann skoraði 25 stig og tók fjórtán fráköst, en hann  hitti ekkert sérsatklega vel (45% nýting inann teigs). Næsti maður var Hlynur með ellefu og Bjarni tíu, en aðrir komust ekki yfir fimm stigin.

Njarðvík tapaði fyrir KR í Njarðvík og fer Þór því upp fyrir Njarðvík í fjórða til fimmta sæti deildarinnar, en bæði lið eru með átján stig. FSu er hins vegar í bullandi vandræðum; með sex stig í næst neðsta sæti - fjórum stigum frá öruggu sæti.

Þór Þ.: Vance Michael Hall 33/9 fráköst, Grétar Ingi Erlendsson 15/5 fráköst, Ragnar Ágúst Nathanaelsson 12/16 fráköst, Þorsteinn Már Ragnarsson 12/4 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 6/5 fráköst, Emil Karel Einarsson 5/6 fráköst, Ragnar Örn Bragason 4/5 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 4, Magnús Breki Þórðason 2, Baldur Þór Ragnarsson 1, Jón Jökull Þráinsson 0, Sveinn Hafsteinn Gunnarsson 0.
FSu: Christopher Woods 25/14 fráköst, Hlynur Hreinsson 11/5 stoðsendingar, Bjarni Geir Gunnarsson 10, Gunnar Ingi Harðarson 5/6 fráköst, Arnþór Tryggvason 4/8 fráköst, Þórarinn Friðriksson 3/5 fráköst, Geir Elías Úlfur Helgason 0, Jörundur Snær Hjartarson 0, Adam Smári Ólafsson 0, Maciej Klimaszewski 0, Svavar Ingi Stefánsson 0.

Einar Árni: Erfitt að tala um mikilvægi leikins
„Það verður að segjast eins og er að það munar gífurlega mikið fyrir FSu að vera án Chris Caird og Ara Gylfasonar. Sigurinn er sannfærandi, en það er ekkert auðvelt í þessu,” sagði Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Þórs, við Vísi í leikslok.

„Þeir börðust og fyrri hálfleikurinn var lala að okkar hálfu. Við vorum fínir varnalega, en sóknarlega fannst mér við eiga töluvert inni. Síðari hálfleikurinn var ljómandi fínn og ég var ánægður með hvernig menn mættu til leiks.”

„Það var erfitt að tala um mikilvægi leiksins vitandi það að þessir tveir lykilmenn væru í burtu. Mér fannst við bregðast virkilega vel við og mæta einbeittir frá fyrstu mínútur. Mér fannst menn klára þetta mjög virkilega vel.”

Aðspurður hvort Einar Árni hafði getað valið sér einhvern betri leik eftir sigurinn frábæra á mánudaginn í bikarnum, segir Einar að hann hafi ekkert hugsað út í það:

„Ég hef svo sem ekki velt því þannig fyrir mér. Við undirbjuggum okkur eins og allir leikmenn FSu væru með og við töluðum um það strax inn í klefanum á mánudaginn að það væri gífurlega mikilvægt að koma hérna og klára okkar.”

„Þetta var gífurlega mikilvægur leikur fyrir framhaldið. Hver sigur í töflunni færir okkur áframhaldandi tækifæri til þess að setja smá pressu á Njarðvík og Stjörnuna sem eru næst fyrir ofan okkur, en eins og ég segi. Ég er virkilega ánægður með hvernig liðið tæklaði þennan leik í dag.”

Þór hefur nú unnið þrjá frábæra sigra í röð; útisigur gegn Tindastól fyrir viku, tryggði sig í bikarúrslit á mánudag og vann granna sína í dag. Fullkominn vika?

„Mér fannst þessi sigrar á Króknum og gegn Keflavík í bikarnum heilmikið þroskaskref fyrir þennan hóp. Fínn gangur á okkur og við vorum að fá framlag frá mörgum í dag. Ég er ánægður með liðsheildina og stigin tvö eru dýrmæt og nú er bara að fara undirbúa okkur fyrir ÍR í Seljaskóla,” sagði Einar og bætti við að lokum?

„Það verður gífurlega erfitt verkefni. Þeir hafa verið að styrkjast á síðustu vikum. Eru að spila betri bolta og eru í mikilli leit að öllum stigum sem í boði eru svo við þurfum að vera virkilega klárir í þann slag,” sagði Einar að lokum.

Erik: Erfitt að vinna Þór
„Við vissum að þetta yrði gífurlega erfiður leikur vegna kringumstæðana, en í vikunni misstum við mikilvæga leikmenn,” sagði Erik Olsson, þjálfari FSu, í samtali við Vísi í leikslok.

„Við ætluðum að reyna stjórna hraðanum og reyna ná honum dálítið niður og sjá hvort við gætum spilað frábæra vörn. Í fyrri hálfleik gerðum við rosalega vel; spiluðum góða vörn og vorum að bakka hvorn annan upp.”

„Við erum með ungan hóp gegn reynslumeiri leikmönnum hjá þeim. Í fyrri hálfleik gerðum við rosalega vel í varnarleiknum, en í síðari hálfleik héldum við því ekki áfram. Við vorum ekki einbeittir og þeir létu sterkari menn inn á sem við réðum ekki við.”

„Þeir náðu fljótlega í síðari hálfleik góðri forystu, úr ellefu stigum í átján eða nítján stig. Við spiluðum ekki vel, en við vissum að þetta yrði erfitt. Það er þó enginn afsökun, því við héldum að við hefðum átt góða æfingarviku og að við værum mættir hér til að vinna leikinn.”

Eftir jafnan fyrri hálfleik skildi á milli liðanna í síðari hálfleik, en hvað gerðist?

„Við tókum ekki góð skot. Við unnum ekki fyrir skotunum, en misstum 30 stig úr byrjunarliðinu okkar fyrir leikinn svo það var skarð fyrir skyldi. Þetta va ekki góður sóknarleikur í kvöld, en vorum að spila grannaslag gegn góðu liði, góð stemning og flott lið. Þór er með flott lið, flottan þjálfara og það er erfitt að vinna þá.”

Ari Gylfason og Chris Caird voru báðir frá í kvöld og segir Erik að það muni um hvern einasta mann sem hefur reynslu af því að spila á háu stigi í þessu unga liði sínu.

„Þeir eru mjög mikilvægir. Allir leikmenn með einhverja reynslu eru mikilvægir í búningsherberginu hjá okkur og þessir leikmenn eru byrjunarliðsmenn og skora mikið,” sagði Erik að lokum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira